3 C
Grindavik
8. maí, 2021

Ein mesta skytta sögunnar

Skyldulesning

Peter Lorimer skorar fyrir Leeds United gegn Barcelona á Nývangi …

Peter Lorimer skorar fyrir Leeds United gegn Barcelona á Nývangi í undanúrslitum Evrópukeppni meistaraliða vorið 1975. Hann var iðinn við kolann.

AFP

Hann hafði ekkert fyrir því að þruma knettinum á 150 kílómetra hraða á klukkustund í netið og einu sinni var vítaspyrna sem hann tók mæld á 172 kílómetra hraða. Eins gott fyrir markverði að þvælast ekki fyrir þessum sleggjum.

Hafi einhver efast um að Peter Lorimer væri skotfastasti leikmaðurinn í ensku knattspyrnunni voru öll tvímæli lögð til hliðar eftir að hann heimsótti vopnaverksmiðju nokkra í Miðlöndunum ásamt tveimur áskorendum og kempum þess tíma, Bobby Charlton og Francis Lee. Græja sem hönnuð var til að mæla hraðann á byssukúlum var ræst og ekki þurfti nema nokkrar spyrnur til að krýna meistarann – Peter Lorimer.

Af mörgum stórbrotnum mörkum Lorimers úr langskotum er markið gegn Manchester City haustið 1971 líklega frægast. Hann fékk þá sendingu frá Billy Bremner; sló tvo varnarmenn út af laginu með því að lyfta knettinum upp í loft áður en hann lúðraði honum í blávinkilinn framhjá bjargvana Joe Corrigan.

Lorimer, sem lést um liðna helgi eftir langvarandi veikindi, 74 ára að aldri, er réttnefnd goðsögn hjá Leeds United og markahæsti leikmaðurinn í sögu félagsins með 238 mörk í 705 leikjum. Hann er einnig sá yngsti til að klæðast hvítu treyjunni, var aðeins fimmtán ára og 289 daga gamall þegar hann þreytti frumraun sína með liðinu árið 1962.

Lorimer, sem fæddist í Dundee í Skotlandi árið 1946, var algjör lykilmaður í gullaldarliði Leeds undir stjórn Dons Revies á sjöunda og áttunda áratugnum; vann tvo meistaratitla og bikarinn og deildabikarinn einu sinni hvort mót. Þá var hann í liði Leeds sem laut í gras gegn Bayern München í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða 1975.

Leikmenn úr þessu merka liði týna nú óðum tölunni en Norman Hunter og Jack Charlton féllu frá í fyrra og áður hafði Billy Bremner kvatt. Af þeim sem enn lifa má nefna Allan „þefvísa“ Clarke, Eddie Gray, Johnny Giles og Mick Jones.

Lorimer var harður Leedsari frá því að hann gekk fyrst …

Lorimer var harður Leedsari frá því að hann gekk fyrst í raðir félagsins árið 1962, aðeins fimmtán ára gamall, og allt til æviloka. Hann lést um liðna helgi.

AFP


Afslappaður utan vallar

Lorimer gaf sig allan í leikinn en var þekktur fyrir að vera afslappaður utan vallar. Þannig rifjaði breska blaðið The Guardian upp í vikunni að hann hefði gjarnan laumað sér út úr búningsklefanum á leikdegi til að horfa á kappreiðar í sjónvarpinu í betri stofu leikmanna. Tíu mínútum fyrir leik sneri hann svo aftur í klefann til að hlusta á Revie leggja línurnar. „Ég var aðeins afslappaðri en hinir. Ég hafði yndi af því að leika knattspyrnu en ef ég tapaði þá lét ég það aldrei bitna á fjölskyldunni. Það hefur ekkert breyst; ekkert kemur mér úr jafnvægi,“ hefur The Guardian eftir honum.

Mörg bestu félagslið Englands voru á eftir Lorimer en það var Don Revie sem sannfærði foreldra hans um að Elland Road væri rétti staðurinn fyrir son þeirra til að vinna úr sínum hæfileikum. Þar með hófst vegferð sem stóð í tæplega sextíu ár. Hann lagðist reyndar í flakk árið 1979 en skilaði sér á endanum heim fjórum árum síðar og lék þrjú síðustu tímabilin með Leeds í 2. deildinni. Linnti ekki látum fyrr en rétt fyrir fertugsafmælið 1986. Eftir það gerðist hann ötull talsmaður félagsins og gegndi trúnaðarstörfum.

Það þykir ótrúlegt afrek í dag að spila til fertugs, hvað þá fyrir 35 árum þegar sparkendur lifðu ekki sama meinlætalífinu og nú og öll þjálfun var frumstæðari. Ef til vill hefur það hjálpað hvað Lorimer var sultuslakur að upplagi. Svo horfði hann mikið á hesta. Enginn skyldi vanmeta gildi þess.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir