8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Einfaldir menn og reglur

Skyldulesning

Svarthöfði er ekki flókinn maður. Hann kann að meta að vakna á sama tíma á hverjum degi, borða klassískan hafragraut með engum óþarfa sætuefnum eða ávaxtarugli, skila svo grautnum akkúrat tuttugu mínútum eftir fyrsta kaffibollann og horfa á fréttatímann á hverju kvöldi – þó svo fréttatími sjónvarpsins sé úreltur miðill sem endursegir aðeins fréttir sem hægt var að lesa á netmiðlum mörgum klukkustundum fyrr. Sem sagt einfaldur rútínumaður.

Þess vegna hafa þessar sóttvarnaaðgerðir valdið því að Svarthöfði er búinn að naga neglur sínar svo mikið að ef hann er alveg hreinskilinn er hann eiginlega að stunda mannát á þessum tímapunkti.

Að vita hvaða fjöldatakmarkanir gilda á hverjum tíma í dag er eins og að spila flókið borðspil. Fyrst þarf að reikna út hvað viðstaddir eru gamlir. Börn teljast ekki inni í takmörkum. Svo þarf að gera upp á milli fjölskyldumeðlima og vina til að velja inn í svonefnda jólakúlu. Ekki líklegt til vinsælda enda eru fjölskyldumeðlimir oft fljótir til að stökkva í fýlu þegar gert er upp á milli þeirra.

Fimmtán manna hópur má ekki koma saman á heimili, en má koma saman á veitingastað og tæknilega séð geta allir farið saman í IKEA og í sund.

Svo eru þekktir tónlistarmenn að boða jólatónleika heima í stofu. Á einum tónleikunum eru búið að auglýsa rúmlega tíu söngvara, tvo kóra, stórhljómsveit og dansara. Á bak við útsendinguna er líklega stórt lið af tæknimönnum og öðrum. Líklega eru þarna fleiri tugir að fara að koma saman og enginn getur sannfært Svarthöfða um annað en að þessi hópur sé líka að hittast til að æfa fyrir tónleikana. Og þetta má fyrir einhverja furðulega ástæðu? Þetta er í lagi en það er ekki í lagi fyrir tuttugu manna vinnustað að fara saman í jólahlaðborð.

Ekki efast Svarthöfði um að þetta sé allt byggt á einhverjum útreikningum, excel-skjölum, rannsóknum og krúsídúllum.

Fyrir þá sem komu ekki að því að búa þessar reglur til geta þær virkað nokkuð ósanngjarnar milli hópa. Sund opið en ekki ræktin, rökstuðningurinn er fleiri smit sem hafa greinst á líkamsræktarstöðvum. Samt er ekki tekið tillit til þess að samanburðurinn er ósanngjarn í því ljósi að mun fleiri sækja líkamsræktarstöðina svo smitin eru líklega ekki fleiri hlutfallslega miðað við höfðatölu.

Þegar reglur eru flóknar og illskiljanlegar, þá geta margir einfaldir einstaklingar fengið þá flugu í hausinn að virða megi þær að vettugi. Svarthöfði hefði frekar viljað sjá óbreyttar reglur. Ennþá harðar en einfaldari. Bönnum frekar öll jólaboð en að láta Svarthöfða þurfa að gera upp á milli móðursystkina og kunningja. Því þegar faraldurinn er búinn þá þarf Svarthöfði samt enn að lifa með þeim ákvörðunum. Og enginn er langræknari en svikin frænka

Innlendar Fréttir