10.2 C
Grindavik
24. júní, 2021

Einn smitaður gæti sett allt á hliðina

Skyldulesning

Jens Hilmarsson varðstjóri.

Jens Hilmarsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Austurlandi, hefur áhyggjur af því að upp komi kórónuveirusmit á Seyðisfirði á sama tíma og bæjarbúar takast á við vandamál tengd aurskriðunum sem hafa fallið í bænum.

Í tilkynningu í morgun var fólk einmitt beðið að gæta að sér.

„Við höfum verið rosalega heppin hér á Austurlandi að vera smitlág,“ segir Jens og bætir við að íbúar hafi passað sig mjög vel í faraldrinum. Núna reyni aftur á móti enn frekar á að fólk fari varlega þegar fólk er í nánari samskiptum, fari inn á hjálparmiðstöðvar og snerti jafnvel sömu kaffikönnurnar. „Einn smitaður í svona umhverfi getur sett allt á hliðina,“ segir hann.

Fólk fari ekki austur í erfiðar aðstæður

Jens hvetur fólk sem býr ekki á svæðinu og á ekki brýnt erindi þangað að fresta því einhverja daga að heimsækja bæinn „og gefa okkur séns á að komast í gegnum þetta erfiða verkefni og ná aftur áttum“. Hann heldur áfram og segir bæjarbraginn hafa riðlast mikið. „Ég veit að það er fullt af fólki sem á hér húseignir sem ekki býr hérna, sem hefur áhyggjur af sínum húseignum, sem er mjög skiljanlegt.“

Lögreglan ætlar að bregðast við þeim fyrirspurnum sem hafa komið og kanna eignirnar. Eigendurnir eru beðnir að vera í sambandi við 112 eða björgunarsveitina Ísólf og láta vita af eignum sínum. „Við förum og skoðum þær fyrir viðkomandi einstaklinga miklu frekar en að fá fólk austur ofan í erfiðar aðstæður hérna á Seyðisfirði. Þær verða erfiðar á meðan þetta rigningartímabil stendur yfir,“ segir varðstjórinn.

Fólk sem býr á rýmingarsvæðinu í bænum hefur aftur á móti fengið grænt ljós á að huga að húsum sínum og eigum. 

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir