Eins og að leita að nál í heystakki

0
96

Ole Torstein Sjo um borð í hollenska skipinu HNLMS Schiedam. mbl.is/Arnþór

Að leita að tundurduflum er eins og að leita að nál í heystakki, segir Norðmaðurinn Ole Torstein Sjo, yfirmaður flota tundurduflaslæðara á vegum Atlantshafsbandalagsins, sem liggur við bryggju í Reykjavík.

Flotinn samanstendur af sex tundurduflaslæðurum frá aðildarríkjum NATO. Forystuskip flotans er norska skipið HNoMS Nordkapp en hin skipin fimm eru ENS Sakala frá Eistlandi, FGS Rottweil frá Þýskalandi, HNoMS Otra frá Noregi, BNS Bellis frá Belgíu og HNLMS Schiedam frá Hollandi.

Blaðamaður fékk að kynna sér aðstæður í því síðastnefnda, sem er með 38 manna áhöfn, og spyrja Sjo nánar út í verkefnið.

Skipið HNLMS Schiedam frá Hollandi. Í baksýn er Harpa. mbl.is/Arnþór

Helstu verkefni skipanna felast í leit og eyðingu tundurdufla og sprengja í hafinu sem hætta stafar af, sem eykur þannig öryggi sjófarenda. Meðan á veru flotans stendur hér á landi koma áhafnir skipanna til með að æfa neðansjávardjúphreinsun á tilgreindum svæðum þar sem vitað er af gömlum duflum, í samstarfi við liðsmenn séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar.

Koen hjá kafbáti sem er notaður til að finna tundurdufl. mbl.is/Arnþór

Tíu ár eru liðin síðan tundurduflafloti á vegum NATO kom síðast til Íslands. Þá fannst tundurdufl í Hvalfirði sem var eytt í samstarfi við Gæsluna.

„Það sýnir að það eru dufl hérna en þetta er eins og að leita að nál í heystakki. Við styðjum okkur við eitthvað af upplýsingum en þetta er dálítil rannsóknarvinna,“ útskýrir Sjo og bætir við að flotinn reyni einnig að átta sig á því hvað menn ætluðu sér með duflunum á sínum tíma. Það hjálpi til við að finna þau.

Hluti áhafnarinnar. mbl.is/Arnþór

Finna vonandi einhver dufl  Spurður hversu mörg dufl gætu verið á hafsbotni við Íslandsstrendur kveðst Sjo ekki vita það. „Við skoðum gögn frá Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum sem Landhelgisgæsla Íslands útvegar okkur. Við vitum að þetta er umtalsvert magn en vitum ekki hversu miklum kröftum var eytt í að fjarlægja duflin eftir stríðið,“ segir hann og á við síðari heimsstyrjöldina. „Við búumst við því að finna einhver og vonandi tekst það.“

mbl.is/Arnþór

Inntur eftir því hvort starfið sé hættulegt segir hann að fyrir sérfræðinga í faginu eins og flota NATO teljist það ekki sérlega hættulegt, þó svo að aldrei sé hægt að útiloka hættuna alveg.

Hann nefnir að flutningaskipum geti stafað hætta af tundurduflum ef skipin verði svo óheppin að láta akkeri falla ofan á þau með þeim afleiðingum að duflin springa. Einnig hefur það gerst að fiskiskip hafa fengið dufl í trollið sem hafa sprungið og fólk hefur slasast.

Er þetta skemmtilegt starf?

„Já en það getur stundum verið pirrandi og mjög erfitt. Ef það er mikið af steinum á hafsbotninum sem líta út eins og dufl þarf mikla vinnu, þolinmæði og einbeitingu til að finna út úr því en ég hef annars mjög gaman af þessu starfi. Það er gaman þegar okkur tekst að fjarlægja dufl með sprengingu,“ greinir Sjo frá.

mbl.is/Arnþór

Spurður segir hann mikilvægt fyrir flotann að koma hingað til lands, sérstaklega miðað við ástandið í Evrópu eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu.

„Það er mjög mikilvægt og í miklum forgangi hjá NATO að sýna aðildarríkjum sambandsins að þótt þau séu jafnvel á afskekktum svæðum sé NATO einnig sýnilegt þar,“ svarar hann en flotinn kom hingað til lands frá Færeyjum. Einnig bendir hann á að staðsetning Íslands hafi verið sérlega mikilvæg frá hernaðarlegu sjónarmiði allar götur frá síðari heimsstyrjöldinni. Það mikilvægi hafi aukist á undanförnum árum. 

Gefandi starf Sjo segir það mjög gefandi að starfa við að gera umhverfið öruggara með því að fjarlægja tundurdufl úr sjónum.

„Það eru ekki margir hermenn sem njóta þeirra forréttinda að sinna því starfi sem þeir eru þjálfaðir til að gera, en auðvitað vill enginn stríð. Tundurdufl eru okkar óvinur og að finna þau er það sem við erum þjálfuð til að gera,“ segir hann og bætir við: „Það að skipta sköpum með því að fjarlægja mögulega hættu úr umhverfinu er bæði gefandi og mikilvægt,“ segir hann.