7 C
Grindavik
26. febrúar, 2021

„Eins og í bíómynd“

Skyldulesning

Sara Mjöll, Eva, Márus Arnarson og Jóna Mist. Eva segir …

Sara Mjöll, Eva, Márus Arnarson og Jóna Mist. Eva segir ástandið á Seyðisfirði einna helst minna á bíómynd eftir skriðuna sem til allrar hamingju kostaði engin mannslíf.

Ljósmynd/Aðsend

„Þetta var alveg skelfilegt. Að sjá það í fréttum að Breiðablik, þetta sögufræga hús, væri bara farið með skriðunni. Myndirnar af því voru hreint áfall.“ Þetta segir Eva Jónudóttir, þjónustufulltrúi og vefsíðustarfsmaður hjá Múlaþingi, búsett á Seyðisfirði, í samtali við mbl.is upp úr hádegi í dag, um það áfall sem náttúruhamfarir gærdagsins voru Seyðfirðingum.

„Þetta var bara eins og í bíómynd, þetta nær langt umfram það að vera í áfalli. Þetta er bara galið, hluti af bænum þurrkaðist bara út, mörg sögufræg hús,“ segir Eva og bætir því við að erfitt sé í fyrstu að átta sig á tjóninu á Seyðisfirði, fólk sé enn að ná áttum.

„Almennt koma skriður hér ekki nema í svakalega mikilli rigningu,“ segir Eva þegar blaðamaður spyr hana hvort búseta á Seyðisfirði sé ekki á borð við San Francisco, skammt frá misgenginu fræga.

Fólk á enn eftir að átta sig á þessu

„Þetta er eitthvað sem talið er að gerist á 100 ára fresti en það er alla vega að gerast núna,“ segir Eva sem flutti um aldamótin til náms í höfuðstaðnum en hefur nú snúið aftur á heimaslóðir. „Okkur langaði að ala börnin okkar upp á Seyðisfirði sem var alltaf draumur hjá mér,“ segir þjónustufulltrúinn frá.

„Hér eru allir að glíma við sínar tilfinningar, horfa á myndir og lesa fréttir. Við erum öll í sama tilfinningarússíbananum og ég held að fólk eigi bara enn eftir að átta sig á þessu, hér hafa björgunarsveitir unnið gríðarlega gott starf og eins lögregla, slökkvilið, prestar, starfsfólk Rauða krossins og sveitarfélagsins og fjölmargir aðrir, allir gera sitt besta. Við spurðum okkur auðvitað strax hvort einhver hefði orðið undir skriðunni, við vissum fyrst ekki neitt. Þetta er svo óraunverulegt,“ segir Eva.

Hún segir úrkomuna undanfarið hafa verið gríðarmikla. „Hér hafa fagaðilar verið að meta fjallið, þar á meðal almannavarnir sem hafa unnið frábært starf við að halda fólki upplýstu. Við erum öll á Egilsstöðum núna þar sem við fengum yndislegar móttökur. Við erum í skólahúsnæði hérna og höfum fengið alla aðstoð og mat og bara nefndu það, samstaða fólks hérna er er virkilega hjartnæm,“ segir Eva.

Þekkir fólk sem missti allt

Hún segir fólki raðað niður á gistirými og ekki skorti gestrisnina. „Okkur er boðið kaffi, matur og viljum við fá lánaðan bíl er það ekkert mál, við fáum fría gistingu út um allt og það er bara ótrúlegt hvað við fáum mikla samkennd frá öllu landinu, allir eru að skrifa okkur á samfélagsmiðlum og bjóða okkur aðstoð,“ segir hún.

„Ég þekki fólk hérna sem hefur mátt sjá á eftir aleigu sinni og allt landið kemur til móts við okkur. Gleðifréttir gærdagsins eru samt þær að ég varð móðursystir, litla systir eignaðist barn,“ segir Eva Jónudóttir þjónustufulltrúi að lokum, innilega þakklát fyrir að skriðan í gær varð engum að fjörtjóni þótt sumir sveitunga hennar hafi misst allt sitt.

Innlendar Fréttir