4 C
Grindavik
18. apríl, 2021

Ekkert að hafa í birtunni og togað yfir nóttina

Skyldulesning

Fjöldi íslenskra uppsjávarskipa hafa verið á kolmunnamiðunum undan Færeyjum. Skipstjórinn á Jóni Kjartanssyni, Grétar Rögnvarsson, segir þokkalega veiði á svæðinu.

Ljósmynd/Aðsend

Búið er að landa 208 þúsund tonnum af kolmunna á árinu samkvæmt tölum á vef Fiskistofu. Alls eru aflaheimildir Íslendinga í kolmunna 247 þúsund tonn og er því eftir að veiða tæplega 40 þúsund tonn, en ótalinn er sá afli sem er í skipunum. Síðustu daga hefur veiðst ágætlega á miðunum á gráa svæðinu milli Færeyja og Skotlands.

Þar voru átta íslensk uppsjávarskip að veiðum í gær; Jón Kjartansson SU, Aðalsteinn Jónsson SU, Hoffell SU, Beitir NK, Börkur NK, Sigurður VE, Venus NS, Víkingur AK. Guðrún Þorkelsdóttir SU var að landa á Vopnafirði, Heimaey VE í Vestmannaeyjum, Bjarni Ólafsson AK á landleið og Huginn VE var á leið á miðin. Á svæðinu suður af Færeyjum voru einnig færeysk, hollensk og rússnesk skip.

Fylgst með þegar Kolmunni fer í gegnum skiljuna um borð í Jóni Kjartanssyni suður af Færeyjum í gær. 330 tonn voru í síðasta holinu.

Ljósmynd/Grétar Rögnvarsson

Þegar rætt var við Grétar Rögnvarsson, skipstjóra á Jóni Kjartanssyni SU 111, skipi Eskju á Eskifirði, um miðjan dag í gær voru þeir að hífa í síðasta skipti í túrnum. Yfir 1.600 tonn voru komin í tanka skipsins og Grétar sagði að útlit væri ágætt á að 300 tonn bættust við, vonandi nóg til að fylla. Þá yrði lagt af stað heim á leið, en af miðunum er um 28 tíma stím til Eskifjarðar.

„Þetta hefur verið alveg þokkalegt síðustu þrjá daga og vinnuveður alla daga,“ sagði Grétar. „Þegar við komum á miðin fyrir viku byrjuðum fyrir austan eyjarnar, en þar var smár kolmunni og svæðum þar var lokað. Þá var farið suður fyrir og hér á gráa svæðinu hafa fengist 3-400 tonn í holi undanfarið. Í birtutímanum hefur ekkert verið að hafa og því verið togað yfir nóttina í 15-20 tíma og síðan híft upp úr hádegi.“

Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni.

Grétar sagðist reikna með að farið yrði í einn túr til viðbótar á Færeyjamið fyrir jól og 5-6 veiðidagar ættu að nást. Lögum og reglum samkvæmt eiga sjómenn á uppsjávarskipum jólaleyfi frá og með 20. desember til 2. janúar.

Eskja á drjúgan kvóta í kolmunna eða um 19% af heildinni og sagðist Grétar reikna með að árið byrjaði á kolmunna suður af Færeyjum eða á alþjóðlegu hafsvæði vestur af Írlandi. „Vonandi verður síðan loðnuvertíð í febrúar og mars,“ segir skipstjórinn.

Óþarfa mannaferðir um borð ekki vel séðar

Loðnuveiðar hafa ekki verið tvö síðustu ár, en Grétar segir að þetta ár hafi að öðru leyti gengið sinn vanagang og sérstaklega vel hafi gengið á veiðum á norsk-íslenskri síld. Spurður um kórónuveikifaraldurinn og aðgerðir um borð segir hann að Austfirðingar hafi blessunarlega sloppið vel frá faraldrinum til þessa. Í sumar hafi áhöfnin tvívegis farið í skimun og menn hugi vel að persónulegum smitvörnum og séu vel varðir um borð.

Á leiðinni á miðin í yfirstandandi túr var komið við í Færeyjum til að taka olíu. Til að forðast smit fór enginn í land og enginn um borð og landgangur ekki settur á milli skips og bryggju. Óþarfa mannaferðir um borð séu ekki vel séðar.

Innlendar Fréttir