2.3 C
Grindavik
29. janúar, 2023

„Ekkert gert annað en að bíta á jaxlinn“

Skyldulesning

„Man ég ekki eftir jafn vondu veðurfari þessi tíu ár sem ég hef verið hjá fyrirtækinu,“ segir Alda Agnes Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Einhamars Seafood, um tíðarfarið á fyrstu tveimur mánuðum ársins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Undanfarin tvö ár hafa verið mjög krefjandi og þurftu stjórnendur Einhamars Seafood í Grindavík að styðja vel við bakið á starfsfólki sínu sem stóð andspænis kórónuveirufaraldri, tíðum jarðskjálftum og að lokum eldgosi.

Alda Agnes Gylfadóttir bendir á að fjöldi útlendinga starfi hjá fyrirtækinu og flestir þeirra óvanir jarðskjálftum, en eins og lesendur muna voru Grindvíkingar plagaðir af jarðskjálftum í aðdraganda eldgossins við Fagradalsfjall: „Við Íslendingarnir erum kannski svolítið vanari svona uppákomum,“ segir Alda en hún er framkvæmdastjóri fyrirtækisins. „Starfsfólkinu var ekki um sel og misstum við frá okkur tvö pör sem fengu sig fullsödd af titringnum og fluttu aftur til Póllands. Annað parið sneri þó aftur til okkar, þegar það versta var afstaðið.“

Þá var kórónuveirufaraldurinn áskorun, rétt eins og hjá öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum, og segir Alda að góðar smitvarnir og dugnaður starfsfólksins hafi tryggt að aldrei varð röskun á starfseminni. Titringur var á mörkuðum í byrjun faraldursins en smám saman komst á jafnvægisástand: „Fyrstu mánuðirnir voru mjög sveiflukenndir og enga vissu að hafa fyrir því að allir samningar myndu ganga eftir. En það rættist úr öllu á endanum.“

Ljósmynd/Einhamar Seafood

Nú er faraldurinn að baki og jörðin hætt að skjálfa en þá tók við leiðindaveður sem torveldað hefur fiskveiðar. „Janúar og febrúar á þessu ári voru einstaklega slæmir, með brælu á brælu ofan, og man ég ekki eftir jafn vondu veðurfari þessi tíu ár sem ég hef verið hjá fyrirtækinu. Komust bátarnir okkar varla út á miðin og það sem hefði átt að vera einhver líflegasti tími ársins varð að lélegri vertíðarbyrjun,“ segir Alda en Einhamar Seafood gerir út bátinn Gísla Súrsson GK-8 auk þess að bátarnir Auður Vésteins SU-88 og Vésteinn GK-88 landa öllum þorsk- og ýsuafla til vinnslunnar. Eru bátarnir allir 15 metra langir og 30 brúttótonn, smíðaðir af Trefjum. „Meira að segja stóru frystitogararnir hafa átt erfitt með veiðar í þessu veðurfari og hef ég frétt að þeir hafi oft þurft að leita í var.“

Breska markaðinum snúið á haus

Markaðurinn fyrir sjávarafurðir er jafnt og þétt að komast í eðlilegt horf. Eins og lesendur muna hafði kórónuveirufaraldurinn þau áhrif að veitingastaðir víða um heim lokuðu eða gerðu miklar breytingar á rekstri sínum og matseðli, og eins varð röskun á starfsemi mötuneyta hjá skólum og vinnustöðum. Á móti jókst sala sjávarafurða hjá matvöruverslunum en íslenskir fiskútflytjendur sáu sérstaklega á eftir veitingastöðunum enda sá kaupendahópur sem greitt hefur hvað best verð fyrir ferskan fisk í hæsta gæðaflokki. Nú er veitingageirinn kominn úr dvala víðast hvar þótt eflaust hafi veitingastöðunum eitthvað fækkað, og ástandið orðið líkara því sem það var. Eitthvað undarlegt er þó að gerast á Bretlandsmarkaði:

„Það hafa orðið gríðarlegar verðhækkanir á sjófrystum afurðum inn á Bretland undanfarna tvo mánuði og er frystur fiskur núna orðinn dýrari en ferskur. Veit ég ekki til þess að það hafi áður gerst. Er sennilegasta skýringin sú að mikill uppgangur virðist vera hjá veitingastöðum sem selja fisk og franskar, og þeir vilja frekar fryst hráefni. Þá kann þessi þróun að sýna að með bættum vinnubrögðum við veiðar, með betri meðferð á afla og með framförum í kælitækni hefur gæðamunurinn á frystum og ferskum fiskafurðum minnkað,“ segir Alda en undirstrikar um leið að þetta sama verðfyrirbæri hafi ekki komið fram á öðrum markaðssvæðum.

Einhamar Seafood gerir út bátinn Gísla Súrsson GK-8.

Þá hefur verð á hráefnismarkaði innanlands hækkað umtalsvert. „Verðin hækkuðu mikið strax í byrjun nýs kvótaárs. Maður beið eftir að markaðurinn myndi jafna sig en verðin hafa haldist há og reynum við að forðast að kaupa fisk á uppboðsmarkaði nema bara rétt til að bjarga okkur með einhverju lágmarksmagni. Er verðið á sjófrystum þorski um þessar mundir um og yfir 700 kr. kílóið upp úr sjó en verð á blönduðum stórum þorski á hráefnismarkaði er í kringum 470 til 500 kr.,“ segir Alda.

Ekki er hægt að færa hækkunina einfaldlega yfir á kaupendur erlendis, a.m.k. á meðan þorskveiðivertíðin stendur yfir í Noregi. „Mikið magn af fiski kemur þaðan um þessar mundir, og norskur sjávarútvegur að auki ríkisstyrktur og niðurgreiddur. Er það ekki fyrr en eftir páska og með sumrinu að Norðmenn draga úr veiðunum og þá skapast kannski aðstæður til verðhækkana.“

Titringur á matvælamarkaði

Enn er ekki hægt að segja til um hvaða áhrif Úkraínustríðið mun hafa á sjávarútveginn, og fyrir matvörur almennt. Bendir Alda á að bæði Úkraína og Rússland framleiði og flytji út mikið magn matvæla, og Rússar umsvifamiklir í sjávarútvegi. Nú hafi stríðið skapað algjöra óvissu um framboð úkraínskra landbúnaðarafurða á komandi misserum og búið að einangra bæði rússneska kaupendur og seljendur sjávarafurða og annarra matvæla frá umheiminum.

„Það mætti vænta þess að þetta leiði til hækkaðs matvælaverðs, og þar á meðal til hærra verðs sjávarafurða, en á móti kemur að það eru takmörk fyrir því hvað neytendur eru reiðubúnir að borga hátt verð fyrir matvæli og ef t.d. fiskur fer að verða of dýr þá einfaldlega leitar almenningur í aðrar vörur, eða færir sig úr tegundum eins og þorski yfir í ódýrari fisk.“

Úkraínustríðið hefur líka haft mikil áhrif á olíuverð, sem veldur verðbólguþrýstingi: „Alveg um leið hækkar rekstrarkostnaður bátanna, flutningskostnaður og umbúðakostnaður en við pökkum öllum okkar vörum í frauðplast. Við erum með olíusamninga sem eiga að verja okkur gegn sveiflum, en þeir samningar undanskilja sérstaklega verðhækkanir vegna meiri háttar áfalla á borð við hernaðarátök. Er í rauninni ekkert sem við getum gert vegna þessa kostnaðarauka, annað en að bíta á jaxlinn.“

Hvolfari og þvottavél hafa reynst vel

Einhamar Seafood eignaðist í fyrra nýjan karahvolfara og karaþvottavél frá Lavango og segir Alda að tækin hafi létt til muna störfin í fiskvinnslunni. „Karahvolfarinn er inni í kæli og hjálpar það okkur að halda hráefninu köldu lengur, en fiskurinn fer beint úr kælinum í hausarann. Hvolfarinn tekur við nokkrum körum í einu og nýtist því vinna lyftaramannsins betur,“ útskýrir hún.

„Þvottavélin sparar okkur að hafa mannskap sérstaklega í því að þvo hundrað kör eftir daginn, en þrifin geta oft verið erfið – sérstaklega þegar brjálað er að gera og körin ekki þrifin jafnóðum og þau eru tæmd. Körin eru þvegin mjög vandlega í þvottavélinni og þeim staflað upp í stæður sem lyftaramaðurinn flytur á réttan stað, tilbúin til notkunar.“

Tækin bera með sér mikla kosti. Ljósmynd/Einhamar Seafood

Viðtalið við Öldu Agnesi var fyrst birt í blaði 200 mílna sem fylgdi Morgunblaðinu 2. apríl.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir