7.4 C
Grindavik
23. júní, 2021

„Ekki átaksverkefni í eitt eða tvö ár“

Skyldulesning

Eva Bjarnadóttir, sem stýrir innanlandsdeild UNICEF, hafði umsjón með gerð …

Eva Bjarnadóttir, sem stýrir innanlandsdeild UNICEF, hafði umsjón með gerð skýrslunnar.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Á Íslandi mælist töluverður skortur á tómstundum barna samanborið við önnur ríki. Samkvæmt greiningu UNICEF á Íslandi bjuggu 18,5% barna á aldrinum 6–15 ára á heimilum þar sem eitthvert barn skorti tómstundir árið 2018. Hlutfallið hækkaði verulega á milli 2009 og 2014, úr 9,8% í 26,5%. Þrátt fyrir að hlutfallið hafi lækkað aftur árið 2018, var það enn hvergi nærri stöðunni árið 2009 segir í nýrri skýrslu UNICEF þar sem efnisleg staða barna á Íslandi var rannsökuð.

Eva Bjarnadóttir, sem stýrir innanlandsdeild UNICEF, hafði umsjón með gerð skýrslunnar. Hún segir að þessi skortur á tómstundum sé það sem hafi komið henni mest á óvart við gerð skýrslunnar. Hennar tilfinning hafi verið að Ísland stæði þar vel, meðal annars vegna tómstundastyrkja og áherslu á íþróttir og æskulýðsstarf hér á landi.

Í samanburði við önnur lönd í Evrópu líða börn á Íslandi almennt lítinn skort. Aftur á móti er athyglisvert að toppnum hvað varðar skort barna var náð hér á landi árið 2014 á meðan annars staðar í Evrópu hafi það verið árið 2009, það er skömmu eftir fjármálahrunið.

Efnislegur skortur barna á Íslandi dróst saman eða stóð í stað á öllum sviðum á milli áranna 2014 og 2018, nema á sviði húsnæðis þar sem skortur jókst. Skortur mældist lítill árið 2009 og er líklegt að þá hafi áhrif efnahagshrunsins á stöðu barna ekki verið að fullu komin fram. Skortur hafði aukist verulega árið 2014, fimm árum eftir efnahagshrunið, og voru áhrifin sjáanleg á nær öllum sviðum. Fjórum árum síðar, árið 2018, var almennt viðurkennt að efnahagslífið hefði rétt úr kútnum og hafði þá efnislegur skortur barna dregist saman á flestum sviðum þótt staðan hafi almennt ekki verið orðin jafngóð og árið 2009.

Ef litið er til bakgrunns barna má greina heimili þar sem skortur var almennt hlutfallslega meiri óháð efnahagsástandi. Skortur mældist meiri meðal barna sem bjuggu í leiguhúsnæði og vó þar þyngst aukinn skortur á sviðum húsnæðis, þroska, tómstunda og menntunar og umönnunar. Menntun foreldra hafði einnig áhrif á skort barna í eldri aldurshópnum, en hlutfall 6–15 ára barna sem leið skort og áttu foreldra með grunn-, framhalds- eða starfsmenntun var hærra en barna háskólamenntaðra samkvæmt skýrslu UNICEF.

Grafík/KG/UNICEF

Þá mældist meiri skortur á meðal 6–15 ára barna sem bjuggu á barnmörgum heimilum en barna sem bjuggu á heimilum með einu eða tveimur börnum. Meðal yngri barna (börn á leikskólaaldri) hafði uppruni foreldra áhrif. Hlutfall barna sem leið skort og áttu foreldra sem fæddust erlendis var almennt hærra en barna sem áttu foreldra sem fæddust á Íslandi og var munurinn marktækur árin 2009 og 2014.

Eva segir að horfa þurfi til þess sem gerðist í fjármálahruninu og þess sem geti gerst hér á landi eftir Covid-faraldurinn. Hér mælist skortur barna mestur árið 2014 í þeim skýrslum sem UNICEF hefur unnið um skort barna á Íslandi. Það er löngu eftir hrun.

Öfug þróun á Íslandi

Aðrar sambærilegar greiningar sýna að í Evrópu var toppurinn árið 2009 en að dregið hafi úr skorti barna árið 2014. Þessu er öfugt farið á íslandi þar sem hér var mjög lítill skortur hjá börnum árið 2009 en hann var orðin töluvert meiri í samanburði árið 2014, segir Eva og bendir á hvað afleiðingar efnahagslægðar geta verið lengi að koma fram.

„Þetta er ekki átaksverkefni í eitt eða tvö ár. Það þarf horfa til lengri tíma, vakta og skoða áhrifin lengur en það. Sérstaklega á viðkvæmustu hópana. Sveiflurnar eru þó nokkrar fyrir heildina en síðan eru ákveðnir hópar sem græða í raun og veru lítið á góðæri. Skortur eykst þegar illa árar, en gengur síðan lítið til baka og það er því ákveðinn hópur sem tapar alltaf,“ segir hún.

Eva segir að það væri spennandi að gera nýja greiningu eftir nokkur ár þannig að hægt sé að sjá hverju aukin áhersla stjórnvalda á málefni barna undanfarin ár er að skila. Hvort efnislegur skortur þeirra minnki. Mikilvægt sé að hagsmunir barna verði í fyrirrúmi í fjárlagagerð og eins við gerð fjárhagsáætlana sveitarfélaga komandi ára segir hún.

Grafík/KG/UNICEF

Standa best að vígi á sviði menntunar

Hlutfall efnislegs skorts meðal barna á Íslandi var það sjöunda lægsta af 31 Evrópuríki árið 2014, samkvæmt samantekt Rannsóknarmiðstöðvar UNICEF, Innocenti. Þá einkennist skortur á Íslandi og í öðrum efnameiri ríkjum af því að hann er ekki umfangsmikill, það er lágt hlutfall barna upplifir skort á fáum sviðum. Það er ólíkt efnaminni ríkjum þar sem er algengt að börn líði skort á mörgum sviðum samtímis. Þegar litið er til skorts barna á einstaka sviðum stóðu börn á Íslandi best á sviði menntunar en skortur á því sviði mældist minnstur hér á landi af þeim löndum sem samanburðurinn tók til. Verst stóðu íslensk börn í evrópskum samanburði á sviðum húsnæðis og tómstunda, en þar vógu þyngst raki í húsnæði, þröngbýli og skortur á íþróttum, tónlist og öðru barna- eða ungmennastarfi.

Eitt af grundvallaratriðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er jafn réttur barna.

Eitt af grundvallaratriðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er jafn réttur barna.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki óviðráðanlegt verk

Eva segir að UNICEF telji mikilvægt að sýna fram á hvað staðan er í raun góð á Íslandi. „Við vitum að staðan er almennt góð og það skapar þau hughrif að hægt sé að hjálpa þeim hópi sem stendur verst. Þetta er ekki óviðráðanlegt verk,“ segir Eva og bætir við: „Þetta er hlutfallslega lítill hópur samanborið við önnur ríki, þannig að það ætti að vera hægt að bregðast við. Aðgerðir gegn fátækt og ójöfnuði þurfa að byggja á góðri þekkingu og nýta þarf þekktar leiðir í baráttunni gegn þeim svo öll börn njóti jafnra tækifæri í samfélaginu óháð efnahag.“

Fjögur ár eru síðan UNICEF á Íslandi birti síðast greiningu á skorti barna hér á landi sem leiddi í ljós að skortur meðal barna hafði aukist á tímabilinu 2009–2014. Árið 2009 voru áhrif hrunsins ekki að fullu komin fram og börn nutu enn uppgangs fyrri tíma. Árið 2014 voru áhrif kreppunnar aftur á móti sjáanleg hvarvetna og greining UNICEF gaf færi á að skoða, með mun nákvæmari hætti en áður, á hvaða sviðum og hjá hvaða hópum barna var líklegt að skortur væri til staðar. 

Eitt af því sem Eva bendir á er sú umbylting sem hefur orðið í lífi barna hér á landi frá árinu 2009 og spurning um hvaða áhrif þetta hefur á tómstundir barna. Framboð á afþreyingu hefur aukist mikið með tilkomu snjallsíma og streymisveita. Þetta er eitthvað sem mætti rannsaka betur, það er hvort þetta skýri að einhverju leyti að börn eru ekki að taka þátt í tómstundum þrátt fyrir mikið framboð af slíkri afþreyingu hér á landi.

Grafík/KG/UNICEF

Skýrslan byggir á greiningu Hagstofu Íslands á svörum úr lífskjararannsókn Evrópusambandsins með barnmiðaðri aðferð sem þróuð var af Innocenti. Greiningin byggir á gögnum sem eru samanburðarhæf meðal Evrópuríkja. Með aðferðinni eru mótaðar nýjar leiðir til að greina efnislegan skort meðal barna í efnameiri ríkjum heims. Lífskjararannsókn Evrópusambandsins byggir á úrtaki heimila einstaklinga sem valdir eru með hendingu úr þjóðskrá.

Sjaldan litið á bak við tölurnar

Markmið skortgreiningarinnar er að greina skort á meðal barna á aldrinum 1–15 ára. Að sögn Evu er nýrri aðferðafræði beitt við gerð skýrslunnar þar sem skortgreiningar eru oft bara miðaðar við tekjur fullorðinna og niðurstaðan yfirfærð yfir á börn. Sjaldnar litið á bak við tölurnar, hvað þýðir það fyrir börn að búa við skort og er það ekki alltaf tekjuskortur sem veldur skorti hjá börnum segir Eva. Hún segir að greiningu sem þessa opna á möguleikann á að það séu fleiri áhrifaþættir  en tekjur sem geti haft áhrif þegar kemur að skorti hjá börnum þrátt fyrir að lágar tekjur skýri skort að mestu.

„Mér finnst þessi greining bæta við aðrar greiningar og draga fram að efnisleg staða barna er svo háð fullorðnum, ákvörðunum þeirra og lífsýn í einhverjum tilvikum,“ segir Eva en eitt af því sem hún bendir á eru tómstundir fatlaðra eða réttara sagt skortur á þeim sem tengist yfirleitt ekki tekjum heimilisins heldur skorti á framboði.

Grafík/KG/UNICEF

Lítið í boði fyrir fötluð börn

Niðurstöður skýrslunnar sýna að munur á milli barna af erlendum uppruna og annarra barna þegar kemur að tómstundum er ekki lengur til staðar. Það skýrist fyrst og fremst af því að skortur hefur aukist meðal barna sem eiga foreldra fædda á Íslandi en Eva segist vona að það þýði líka að þær aðgerðir sem þegar hafi verið gripið til séu að skila árangri. Aftur á móti hafa fötluð börn sjálf bent á að lítið úrval sé af íþróttum og frístundum fyrir sinn hóp. Hefðbundið íþrótta- og frístundastarf er ekki aðgengilegt öllum og hafa rannsóknir á þessu sviði leitt í ljós að fötluð börn, sem ekki geta tekið þátt í tómstundum, upplifa félagslega einangrun og vanlíðan að því er segir í skýrslunni.

mbl.is/Kristinn Magnússon

UNICEF hvetur stjórnvöld til þess að tryggja jafnræði og jafnt aðgengi barna að tómstundastarfi óháð fjárhagslegri stöðu foreldra, fötlunar, uppruna eða annars. Ljóst er að margvíslegar félagslegar, menningarlegar og efnahagslegar hindranir búa að baki háu hlutfalli barna á Íslandi sem iðka ekki tómstundir. UNICEF leggur til að stjórnvöld kortleggi hindranir á þátttöku barna og ungmenna í tómstunda- og æskulýðsstarfi.

Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög leiti skýringa á skortinum, komi í veg fyrir mismunun og tryggi að öll börn njóti réttar síns til tómstundastarfs. UNICEF hvetur stjórnvöld til þess að fjölga sérstaklega tækifærum fatlaðra barna til þátttöku í tómstundastarfi, ásamt því að auka aðgengi barna af erlendum uppruna. Þar er viðeigandi aðlögun og upplýsingamiðlun til barna og foreldra lykilatriði, segir í tillögum UNICEF á Íslandi til stjórnvalda í skýrslunni. 

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir