Ekki fyrsta Wilson-skipið í veseni á árinu

0
71

200 mílur | mbl | 5.5.2023 | 11:11

Flutningaskipið Wilson Hook er sagt hafa strandað í Ólafsvík í mars. Ljósmynd/Wikipedia:Cavernia

Wilson Skaw sem strandaði á Húnaflóa 18. apríl síðastliðinn var ekki fyrsta flutningaskip skipafélagsins Wilson sem lendir í vanda við Íslandsstrendur á árinu. Þann 26. mars hafði hafnarríkiseftirliti Samgöngustofu borist tölvupóstur um að skipið Wilson Hook hefði strandað í Ólafsvík.

Skipið var í kjölfarið kyrrsett í samræmi við ákvæði Parísarsamkomulagsins, að því er fram kemur á vef Samgöngustofu. Þar segir að hafnarríkiseftirlitsmenn hafi haldið til Ólafsvíkur til að gera úttekt á skipinu mánudaginn 27. mars.

Þá framkvæmdi flokkunarfélagið DNV neðansjávarkönnun með kafara og komst að þeirri niðurstöðu að engar skemmdir hefðu orðið á skipsskrokknum. Eftir skoðunina var skipinu sleppt klukkan 17.30 og leyft að sigla til næstu viðkomuhafnar á Grundarfirði.