Ekki grunur um að nokkuð saknæmt hafi leitt til brunans

0
69

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú hvernig eldurinn í Grímsnesi GK-555 kviknaði aðfaranótt þriðjudags. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tæknideild lögreglunnar á Suðurnesjum rannsakar nú hvernig eldsvoðinn í Grímsnesi GK-555 í Njarðvíkurhöfn bar að. Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, segir lögregluna vinna málið út frá því að slys hafi orðið frekar en að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað. 

Hann segir málið þó enn til rannsóknar og því í raun ekkert hægt að segja með vissu hvað olli því að eldur kviknaði í skipinu aðfaranótt þriðjudags. Sjö voru um borð í skipinu. Karlmaður á fimmtugsaldri lést, tveir slösuðust en þrír komust út af sjálfsdáðum. 

„Þetta er það sem er til skoðunar í dag. Ég hallast nú frekar að því að þetta sé slys. Það á eftir að koma í ljós en það er svona okkar tilgáta í augnablikinu. Tæknideildin er að störfum og ég er vongóður um það að við komumst að réttri niðurstöðu,“ segir Úlfar í samtali við mbl.is.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakar einnig vettvanginn.