Ekki grunur um íkveikju

0
66

Lögregla hefur lokið rannsókn sinni um borð í Grímsnesi GK-555. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum telur að eldurinn sem kviknaði í Grímsnesi GK-555 í Njarðvíkurhöfn aðfaranótt þriðjudags hafi ekki brotist út með saknæmum hætti en vonir standa til að rannsókn lögreglu geti upplýst um eldsupptök. 

Rannsókn miðar vel áfram að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu en rannsókn um borð í skipinu er lokið.

Hefur það verið afhent eigendum og tryggingafélagi til umráða. Lögregla vinnur nú úr rannsóknargögnum með aðstoð tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. 

Sjö menn voru um borð í skipinu þegar eldurinn varð. Einn lést, tveir slösuðust alvarlega og fjórir komust út af sjálfsdáðum.