8 C
Grindavik
22. apríl, 2021

Ekki sanngjarnt að Manchester United fái tækifæri

Skyldulesning

José Mourinho er með Tottenham á toppi úrvalsdeildarinnar og liðið …

José Mourinho er með Tottenham á toppi úrvalsdeildarinnar og liðið er komið áfram úr sínum riðli Evrópudeildarinnar.

AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að það sé ekki sanngjarnt að Manchester United fái tækifæri til að vinna Evrópudeildina eftir að hafa fallið út úr Meistaradeild Evrópu.

United tapaði fyrir RB Leipzig í fyrrakvöld, 3:2, og situr eftir í þriðja sæti í sínum riðli Meistaradeildarinnar en liðin átta sem enduðu í þeirri stöðu fara í 32ja liða úrslit Evrópudeildarinnar ásamt þeim 24 liðum sem fara áfram úr riðlunum í þeirri keppni. Þeirra á meðal er Tottenham sem er þegar komið áfram fyrir lokaleik sinn gegn Antwerpen í kvöld.

„Nú er Manchester United eitt sigurstranglegasta liðið i þessari keppni. Liðin sem koma úr Meistaradeildinni eru alltaf sterk og eiga yfirleitt ekki heima á þessum vettvangi. En þetta er eins og það er, og vissulega gerir þetta keppnina sterkari. Hvað sanngirni varðar finnst mér ekki réttlátt að lið sem nær ekki árangri í einni keppni fái tækifæri í annari í staðinn,“ sagði Mourinho á fréttamannafundi.

Manchester United mátti sætta sig við að vera á eftir París SG og Leipzig þrátt fyrir að hafa sigrað bæði lið í tveimur fyrstu umferðum riðlakeppninnar.

„Við vissum að þetta væri erfiður riðill og vissum að það kæmi virkilega gott lið úr honum yfir í Evrópudeildina,“ sagði Mourinho.

Ensku liðin verða því alls fjögur í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar því auk Tottenham hafa bæði Arsenal og Leicester tryggt sér sæti þar fyrir lokaumferð riðlakeppninnar sem er leikin í kvöld.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir