6.3 C
Grindavik
4. október, 2022

Ekki sjálfgefin sakfelling í tálbeitumálinu

Skyldulesning

Kolbrún hvetur ekki til þess að aðrir taki sér hlutverk …

Kolbrún hvetur ekki til þess að aðrir taki sér hlutverk tálbeitu. mbl.is/Árni Sæberg

Nýlega féll dómur í héraðsdómi Suðurlands þar sem sakfellt var í fyrsta skipti í máli sem byggði að mestu á gögnum sem tálbeita, sem ekki var á vegum lögreglu, kom að.

Þrátt fyrir niðurstöðuna hvetur Kol­brún Bene­dikts­dótt­ir vara­héraðssak­sókn­ari ekki almenning til að taka að sér hlutverk tálbeitu.

Í málinu hafði karlmaður­ á sextugsaldri sent öðrum not­enda skilaboð á einkamal.is sem inni­héldu kyn­ferðis­legt og lostugt orðbragð og eina mynd af getnaðarlim sín­um.

Maður­inn taldi mót­tak­anda skila­boðanna vera 14 ára gamla stúlku en hann var í raun að tala við karlmann á þrítugs­aldri sem hafði þóst vera ung­lings­stúlk­an og tók samskipti þeirra upp.

Strangar reglur um notkun á tálbeitum

„Það gilda strangar reglur um notkun lögreglu á tálbeitum og má segja að í tilvikum þar sem aðrir en lögregla taka sér hlutverk tálbeitu sé litið til þeirra reglna. Því til stuðnings má benda á dóm Héraðsdóms Suðurlands í máli S-69/2012 en þar var sýknað og í svo kölluðu Kompásmálunum sjá t.d. H. 584/2007 en þar var líka sýknað,“ segir Kolbrún við mbl.is.

Í Kompásmálinu sem Kolbrún vísar til höfðu fréttamenn farið með hlutverk tálbeitu og þóst vera 13 ára stúlka. Markmiðið var að góma þá sem settu sig í samband við stúlkuna til þess að hafa við hana samræði. Í kjölfarið handtók lögreglan mann og var hann ákærður fyrir kynferðisbrot gegn barni. Gögnin sem fréttamennirnir höfðu aflað með notkun tálbeitu voru lögð fram sem sönnunargögn. 

Dómurinn taldi hins vegar að sönnunargögnum sem væri aflað með tálbeitu á vegum einkaaðila og að eigin frumkvæði, en ekki af frumkvæði lögreglu, teldust ólögmæt. 

Samkvæmt reglugerðarheimild má tálbeita vera lögreglumaður eða annar starfsmaður lögreglu sem fer með lögregluvald og hefur samskipti við sakborning sem grunaður er um að ætla að fremja refsivert brot. 

„Það er því ekki sjálfgefið að mál sem þessi leiði til sakfellingar, það þarf að gæta að þeim reglum sem gilda um notkun tálbeita og slík mál eiga að vera á höndum lögreglu. Ég myndi þannig ekki hvetja til þess að aðrir taki sér þessi hlutverka enda ýmislegt sem þarf að hafa í huga og getur komið upp á ef menn leika þann leik,“ segir Kol­brún.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir