8 C
Grindavik
22. apríl, 2021

Ekki tekist að koma til móts við börnin

Skyldulesning

Markmið Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um reglugerðarbreytingar til að koma til …

Markmið Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um reglugerðarbreytingar til að koma til móts við börn með skarð í vör hafa ekki tekist.

mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir tvær reglugerðarbreytingar sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðið fyrir til að koma til móts við fámennan hóp barna með skarð í vör, hefur ekki tekist að fá Sjúkratryggingar Íslands til að samþykkja greiðsluþátttöku vegna meðferðar barnanna. Í ráðuneytinu er til skoðunar að gera frekari breytingar á framkvæmd þessara mála.

Fram kemur í svari við fyrirspurn mbl.is að tvær reglugerðarbreytingar hafi verið gerðar með það að markmiði að koma til móts þennan fámenna hóp barna. Engu að síður hafa börnin enn ekki fallið undir skilgreiningar SÍ um þá sem eiga rétt til greiðsluþátttöku. Fram kemur að greiðsluþátttaka þurfi að fara fram að undangengnu mati tannlæknadeildar Háskóla Íslands. Svo virðist sem tannlæknadeildin leggi annað mat á málin en Gísli Vilhjálmsson, tannlæknir og sérmenntaður tannréttingasérfræðingur, sem hefur verið málsvari barnanna. Hann skilur ekki tregðu SÍ til greiðsluþátttöku. 

„Undirritaður hefur unnið með börnum með skarð í vör og góm í vel rúm 30 ár. Skarðabörn sem fæðast með þennan galla fá ekki bót á fæðingargalla sínum nema með skurðaðgerðum og tannréttingum. Þau vaxa ekki frá galla sínum eða meinum,“ sagði Gísli í samtali við mbl.is. 

Gísli Vilhjálmsson, sérfræðingur í tannréttingum.

Gísli Vilhjálmsson, sérfræðingur í tannréttingum.

Markmiðin voru skýr

Síðari reglugerðarbreytingin tók gildi 1. janúar. „Markmið þeirra reglugerðabreytinga sem heilbrigðisráðherra réðst í voru skýr, þ.e. að koma til móts við þennan hóp barna og foreldra þeirra. Það er hins vegar grundvallaratriði að farið sé að reglunum, þ.e. að ekki sé ráðist í meðferð nema að undangengnu mati tannlæknadeildar HÍ, meðferð teljist nauðsynleg og tímabær og enn fremur að samþykki Sjúkratrygginga Íslands fyrir útgjöldum vegna meðferðar liggi fyrir áður en meðferð hefst,“ segir enn fremur í svari til mbl.is.

Sjúkratryggingar Íslands hafa synjað fjölskyldum barnanna um greiðlsuþátttöku.

Sjúkratryggingar Íslands hafa synjað fjölskyldum barnanna um greiðlsuþátttöku.

Geta skotið málum til úrskurðarnefndar

Bent er á í svari við fyrirspurninni að foreldrar eigi kost á því að kæra túlkun SÍ á reglugerðinni til úrskurðarnefndar velferðarmála. 

Geta þessar fjölskyldur, sem eiga barn með skarð í vör en hafa til þessa fengið synjun frá SÍ um greiðsluþátttöku, átt von á því að fá þann kostnað sem felst í hvers kyns aðgerðum eða lagfæringum tengdum þessum frávikum greiddan af Sjúkratryggingum Íslands?

„Af hálfu ráðuneytisins er jafnframt verið að skoða hvort efni standi til þess að gera frekari breytingar á framkvæmd þessara mála. Leiði sú skoðun til þeirrar niðurstöðu að framkvæmdinni sé ábótavant og tryggi ekki sem skyldi rétt hlutaðeigandi barna til nauðsynlegrar meðferðar kemur til greina að endurmeta mál sem tekin hafa verið til umfjöllunar. Það er því ekki tímabært að segja af eða á um hverjar lyktir verða í málum þeirra barna sem hér er spurt um,“ segir í svari við fyrirspurn mbl.is.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir