Ekki útilokað að sölutekjurnar rati til Rússlands

0
86

Fátt bendir til að rússneska móðurfélagið Norebo fái ekki til sín afrakstur sölufélagsins Norebo Europe ltd. Ljósmynd/Norebo

Ekki er hægt að útlioka að sölutekjur Norebo Europe ltd. af rússnesku sjávarfangi sem rata inn á reikninga í Landsbankanum endi hjá móðurfélaginu Norebo í Rússlandi, þrátt fyrir að stórum hluta af rússnesku bankakerfi hafi verið úthýst frá greiðslukerfinu SWIFT. Rússneska útgerðarfélagið Norebo hefur meðal annars fjárhagslega stutt Sameinað Rússland, stjórnmálaflokk Vladímírs Pútíns forseta Rússlands.

Úkraínsk stjórnvöld hafa biðlað til Vesturlanda að loka fyrir sölu rússneskra sjávarafurða og hafa Bandaríkin innleitt bann og Bretland lagt á 35% innflutningstoll. Engar takmarkanir eru þó á viðskiptin á evrópska efnahagssvæðinu.

Flókið og kostnaðarsamt Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Norebo Europe ltd. hafi tilkynnt viðskiptavinum sínum í Evrópu í vetur að framvegis ættu greiðslur að berast inn á gjaldeyrisreikninga félagsins í Landsbankanum.

Í umfjöllun Morgunblaðsins upplýsir utanríkisráðuneytið að ekkert sé því til fyrirstöðu að íslenskar fjármálastofnanir annist viðskipti sem brjóta ekki gegn viðskiptaþvingunum, en vakin er athygli á að erfitt getur verið að senda fjármagn til Rússlands þar sem stór­ir rússnesk­ir bank­ar hafa verið úti­lokaðir frá SWIFT-kerf­inu

Þetta staðfestir Seðlabanki Íslands í svari við fyrirspurn: „Íslenskum fjármálastofnunum er almennt séð heimilt að sinna greiðslum til Rússlands. […] Þá bendir Seðlabankinn einnig á að búið er að aftengja Rússland frá aðal millilandagreiðslumiðlunarkerfinu, SWIFT, þannig að ekki er hægt að senda greiðslur beint til eða frá Rússlandi gegnum það kerfi.

Við spurningu um hvort Seðlabankanum sé kunnugt um að íslenskar fjármálastofnanir og/ eða bankar hafi haft milligöngu vegna greiðslna til Rússlands, til að mynda frá Bretlandi eða Frakklandi, svarar Seðlabankinn því neitandi.

Seðlabankinn segir þó einnig hægt að færa fjármagn til Rússlands frá Íslandi með peningasendingum eða í gegnum greiðslukort og eru engar takmarkanir á upphæðum í slíkum viðskiptum.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins viðurkennir einnig að fjármagnshreyfingar séu mögulegar utan SWIFT „en það er dýrt, flókið og krefst gagnkvæms trausts milli fjármálastofnana. Það færir greiðslur aftur til þess tíma þegar sími og fax voru notaðir til að staðfesta hverja færslu.“

Fjármagn finnur leiðir Rússneskir bankar hafa þó ekki setið auðum höndum og tilkynnti rússneski bankinn VTB í september síðastliðnum að hann væri orðinn fyrsti rússneski bankinn sem býður upp á millilandagreiðslur til Kína í kínversku júani án þess að nota alþjóðlega greiðslukerfið SWIFT.

Jafnframt hefur á síðasta ári átt sér stað töluvert samstarf milli seðlabanka Kína og seðlabanka Rússlands um samræmingu greiðslukerfa ríkjanna.

Það er því fátt sem bendir til að tekjur af sölu rússneskra sjávarafurða í Evrópu og Bretlandi sem eiga leið um íslenska fjármálastofnun rati ekki til móðurfélagsins í Rússlandi.

Vladímír Pútín forseti Rússlands og Xi Jinping forseti Kína. Rússland hefur í auknum mæli orðið háð Kína vegna viðskiptaþvingana Vesturlanda. AFP

Hefur stutt Pútín Rússneska útgerðin Norebo er meðal stærstu útgerðarfyrirtækja í heimi og er í eigu ólígarkans Vitaly Orlov sem er meðal auðugustu manna Rússlands, metinn á 2,1 milljarð Bandaríkjadala sem er jafnvirði um 291 milljarðs íslenskra króna. Orlov hefur verið stuðningsmaður Vladímírs Pútíns, forseta rússneska lýðveldisins, og stutt flokk forsetans, Sameinað Rússland, fjárhagslega í gegnum árin.

Enn sem komið er hefur Orlov ekki sætt viðskiptaþvingunum en nýverið færði hann 75% af eignarhaldi á Norebo Europe ltd. yfir á son sinn Níkíta sem hefur norskan ríkisborgararétt. Dagens Næringsliv hélt því fram í umfjöllun sinni 14. apríl síðastliðinn að ástæðan væri að Orlov óttaðist að verða settur á bannlista vestrænna þjóða.