Ekkill í mál við Astra: Eiginkonan dó viku eftir að hafa verið bólusett gegn Covid-19 – DV

0
173

Gareth Eve, ekkill bresku fjölmiðlakonunnar Lisu Shaw, sem lést í maí 2021, segist ekki eiga annarra kosta völ en að stefna lyfjaframleiðandanum AstraZeneca. Lisa lést viku eftir að hafa verið bólusett gegn COVID-19 með bóluefni lyfjafyrirtækisins.

Lisa fékk blóðtappa eftir að hafa fengið bóluefnið en fjallað var um slík tilfelli þegar bólusetningar gegn veirunni stóðu sem hæst. Ástandið sem um ræðir er kallað VITT, en það stendur fyrir Vaccine induced thrombocytopenia and thrombosis.

Teymi lögmanna hefur unnið að máli Gareth og tuga annarra sem halda því fram að kenna megi bóluefninu um andlát aðstandenda sinna.

Gareth segir í samtali við Daily Mail að hann hafi reynt að ná athygli breskra ráðamanna á málinu en án árangurs. Honum sé því nauðugur sá kostur að stefna AstraZeneca til að fá viðurkenningu fyrirtækisins á skaðsemi bóluefnisins fyrir Lisu.

„Við erum ekki neinir brjálæðingar eða samsæriskenningasmiðir. Við erum hópur af eiginmönnum, eiginkonum og fjölskyldumeðlimum sem höfum misst ástvin,“ segir hann. Hann segir að hann sækist ekki eftir peningum, enda muni engin upphæð koma í stað Lisu.

Lisa var 45 ára þegar hún lést en hún starfaði fyrir BBC Newcastle um margra ára skeið.