Eldri hjón steiktu sér fisk í hádegismat: Dóu bæði eftir að hafa borðað hann – DV

0
88

Ng Ai Lee, dóttir hjóna sem létust eftir að hafa keypt sér eitraðan kúlufisk (e. pufferfish) og borðað hann, hefur kallað eftir því að lög verði hert í kringum sölu á þessari tegund til almennings.

Ng Chuan Sing og eiginkona hans, Lim Siew Guan, bæði rúmlega áttræð og búsett í Malasíu, keyptu sér að minnsta kosti tvo kúlufiska þann 25. mars síðastliðinn. Þau steiktu fiskinn í hádeginu dag einn fyrir skemmstu og strax í kjölfarið byrjaði Lim að finna fyrir skjálfta og öndunarerfiðleikum. Um klukkustund síðar byrjaði Sing að finna fyrir sömu einkennum.

Bæði voru flutt alvarlega veik á sjúkrahús og var Lim úrskurðuð látin klukkan sjö að kvöldi sama dag. Sing var haldið sofandi í öndunarvél í átta daga en lést síðastliðinn laugardag.

Ng Ai Lee, dóttir hjónanna, segir að foreldrar hennar hafi ekki haft hugmynd um að fiskurinn væri baneitraður og það veki furðu hjá henni að fólk geti yfir höfuð nálgast hann.

Kúlufiskurinn, sem er þekktur undir nafninu Fugu í Japan, inniheldur eitur sem nefnist tetrodotoxin. Fiskurinn er vinsæll í Japan og í Suður-Kóreu og eftirsóttur af matgæðingum sem heimsækja flottari veitingastaði þessara landa. Þar er hann matreiddur af reynslumiklum kokkum sem passa vandlega upp á að fjarlægja eitraða hluta fisksins vandlega.