4 C
Grindavik
1. mars, 2021

Endurreisn 1. des…..

Skyldulesning

Þriðjudagur, 1. desember 2020

Sú var tíðin, að dagurinn í dag, 1. desember, var hátíðlegur haldinn til þess að minnast þess að þann dag árið 1918 öðlaðist íslenzka þjóðin fullveldi. Það voru háskólastúdentar, sem sáu um þau hátíðahöld og undanfari þeirra ár hvert voru hörð pólitísk átök á milli Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta og félagasamtaka vinstri manna um hátíðadagskrána hverju sinni og aðalræðumann dagsins.

Smátt og smátt virtist áhugi háskólastúdenta á að gegna þessu hlutverki fjara út og í marga áratugi hefur varla verið hægt að tala um að þessa sögulega dags í lífi íslenzku þjóðarinnar væri minnst með þeim hætti, sem hæfir.

Er ekki kominn tími á endurreisn hátíðahalda 1. desember?

Er áhugaleysi háskólastúdenta nú um stundir um þennan dag ekki einmitt áminning um mikilvægi þess, að nýjar kynslóðir Íslendinga minnist þessarar sögu og þeirra, sem voru í forystu fyrir sjálfstæðisbaráttu íslenzku þjóðarinnar öldum saman.

Hafi háskólastúdentar í dag ekki áhuga á því, er spurning, hvort eldri stúdentar gætu þá tekið það verkefni að sér. Einu sinni var til kraftmikið félag, sem hét eða heitir Stúdentafélag Reykjavíkur og var oft vettvangur líflegra skoðanaskipta um þjóðmál. Er það til ennþá? Ef ekki er kannski hægt að endurvekja það.

Þetta er sett hér fram til umhugsunar.

En jafnframt er rétt að geta þess, að í dag kl. 18.00 verður sendur út fjarfundur á vegum Félags sjálfstæðismanna um fullveldismál, sem stofnað var þennan dag fyrir ári. Aðalræðumaður á þeim fjarfundi verður Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari, sem nýlega birti afar athyglisverða grein um fullveldið í tímaritinu Þjóðmál

Hægt er að fylgjast með fundinum á Fullveldisfelagid.is eða á Fésbókarsíðu félagsins.

Innlendar Fréttir