8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Engin ný riðutilfelli

Skyldulesning

Meðgöngutími riðu er 2-5 ár. Greinig sýna gengur vel.

Greining riðusýna gengur vel og ekki hafa fleiri riðutilfelli komið upp í Tröllaskagahólfi er segir í tilkynningu frá Matvælastofnun í dag. Sýni úr Tröllaskagahólfi eru í forgangi í greiningu á Keldum.

Búið er að taka um fjögur þúsund sýni úr Tröllaskagahólfi en rannsóknir þar munu halda áfram. Næmni prófsins er 67% svo að ekki er hægt að útiloka frekari útbreiðslu þó að riða greinist ekki í sýnum.

Riða ekki  greinst á fleiri bæjum

„Matvælastofnun hefur tekið 3.947 sýni úr Tröllaskagahólfi frá því að fyrsta tilfellið kom upp í haust. Þau skiptast þannig að 170 sýni eru úr kindum sem felldar voru í tengslum við flutninga frá sýktum búum, 1.449 sýni eru úr sláturfé og 2.328 sýni úr fé sem skorið var niður.

Sýnin voru send til greiningar hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands á Keldum. Ekki hefur greinst riða í sauðfé frá fleiri bæjum,“ segir í tilkynningunni.

Greiningu úr sláturfé í Tröllaskagahólfi er lokið, þau sýni voru í forgangi. Þá hefst greining sýna úr fé sem skorið hefur verið niður og svo reglubundin greining sýna úr sláturfé af öllu landinu.

Meðgöngutími riðu 2-5 ár

„Matvælastofnun ítrekar að þrátt fyrir að ekki séu vísbendingar um frekara smit innan hólfsins þá er ekki hægt að útiloka það. Meðgöngutími riðu er 2-5 ár og verður tíminn að leiða í ljós hvort riða hefur dreift sér frekar. Rakning fjárflutninga á svæðinu heldur áfram og greining sýna úr kindum sem hafa verið fluttar milli bæja er í forgangi. Tilkynnt verður um smit þegar og ef það greinist,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Innlendar Fréttir