2 C
Grindavik
15. janúar, 2021

Engin smit um borð í Baldvini Njálssyni

Skyldulesning

Covid-sýnataka skipverja á frystitogaranum Baldvini Njálssyni GK 400 leiddi í ljós að hann var ekki smitaður. Togarinn er því farinn aftur af stað. Þetta staðfestir Þorsteinn Eyjólfsson, skipstjóri togarans í samtali við mbl.is.

RÚV greindi fyrst frá málinu.

Einn skipverja fór að sýna einkenni á þriðjudagskvöld. Þá var togarinn staddur í Ísafjarðardjúpi og var þá tekin ákvörðun, í samráði við Landhelgisgæsluna, um að sigla til Hafnarfjarðar. Þar fór skipverjinn í sýnatöku í dag og fékkst niðurstaða úr skimun nú um hádegisleytið. 

Allir skipverjar höfðu farið í sýnatöku á sunnudag áður en haldið var af stað á mánudag.

Þorsteinn segir aðspurður að þrátt fyrir að ekkert smit hafi greinst hafi verið gott að þeir gripu til varúðarráðstafana. „Manni ber bara skylda til þess í þessu ástandi.“

Slæmt veður var í Ísafjarðardjúpi þegar Baldvin Njálsson og áhöfnin voru staddir þar. 

„Það var kannski lán í óláni að það var ekkert hægt að vera á veiðum,“ segir Þorsteinn.

Innlendar Fréttir