0 C
Grindavik
30. nóvember, 2020

Engin viðmið um afléttingu sóttvarnaraðgerða

Skyldulesning

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna.

Kristinn Magnússon

Engin viðmiðunarmörk eru til um nýgengi smita sem miðast er við þegar ákvarðanir eru teknar um afléttingu sóttvarnaraðgerða. Ísland er enn tilgreint sem rautt land og enn nokkuð í land svo hægt sé að létta á sóttvarnaraðgerðum. 

Svo segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna í samtali við mbl.is 

Nýgengi smita er nú 66,8 og hefur farið hratt lækkandi hér á landi að undanförnu. Sé tekið mið af samræmdum litakóðum sem ráðherraráð Evrópusambandsins lagði til eru nýgengi smita enn í rauðum lit hér á landi. Rauði liturinn þýðir að nýgengi smita er hærra en 50 á hverja 100 þúsund íbúa ef miðað er við fjórtán daga tímabil. 

Vart hefur orðið við sóttvarnarþreytu í samfélaginu og margir kallað eftir því að aðgerðir fari eftir aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Þannig verði rýmkaðar heimildir í verslunum sem hafi stórt rými umráða auk þess sem margir furðuðu sig á ákvörðun um að banna golfiðkun í haust svo dæmi séu nefnd. Víðir segir að sú leið að setja grófar línur taki mið af ófyrirsjánleika veirunnar. 

„Það eru engin tölfræðimörk fyrir afléttingum. Þegar farið var í afléttingar í vor var nýgengi smita talsvert lægra en það er núna. Við eigum því eitthvað smávegis eftir í land. Ísland er t.a.m. ekkli orðið grænt samkvæmt skilgreiningum sóttvarnaryfirvalda í Evrópu og við eigum töluvert eftir þangað,“ segir Víðir. 

Tegund veirunnar skiptir máli 

Hann segir að fara þurfi eftir fleiri forsendum öðrum en nýgengi smita þegar ákvörðun er tekin. Nefnir hann í því samhengi hlutfall þeirra sem eru utan sóttkvíar, tegund veirunnar sem verið sé að glíma við og hvort hópsýkingar séu í gangi. „Þetta er ekki viðskiptafræði eða verkfræði þar sem hægt er að reikna sig niður á fasta niðurstöðu. Því miður,“ segir Víðir. 

„Hún er svo ófyrirsjáanleg þessi veira. Fyrir vikið er erfitt að setja ákveðna línu í þessum efnum. Það eru tugir atriða sem eru skoðaðir hjá sóttvarnarlækni áður en hann tekur ákvörðun hverju sinni. Það er enginn í heiminum búinn að búa til reiknilíkan sem getur spáð fyrir um hegðun veirunnar með einhverri nákvæmni. Ef menn skoða reiknilíkan háskólans þá sést best hve óvissan í öllum útreikningunum er mikil,“ segir Víðir.  

Innlendar Fréttir