Enn bætist á meiðslalista Liverpool

0
262

Skyldulesning

Darwin Núnez. AFP/Oli Scarff

Sóknarmaðurinn Darwin Núnez hefur dregið sig úr landsliðshópi Úrúgvæ fyrir komandi verkefni vegna meiðsla.

Núnez er leikmaður enska knattspyrnuliðsins Liverpool og eru þetta vondar fréttir fyrir Jürgen Klopp, stjóra þess.

Núnez hefur spilað vel fyrir liðið undanfarið en gengi liðsins á tímabilinu hefur verið langt undir væntingum. Meiðslavandræði hafa verið mikil í leikmannahópnum og hefur liðið náð litlum sem engum takti.

Ekki er ljóst að svo stöddu hve alvarleg meiðslin eru en það er ljóst að Klopp og aðrir tengdir Liverpool-liðinu munu vonast eftir góðum fréttum á næstunni.

Á meiðslalista Liverpool eru fyrir þeir Thiago, Luis Díaz, Joe Gomez, Stefan Bajcetic og Calvin Ramsay. Þá hafa leikmenn eins og Diogo Jota, Naby Keita, Joel Matip og Arthur verið mikið frá á tímabilinu þrátt fyrir að vera heilir heilsu að svo stöddu.