3 C
Grindavik
8. maí, 2021

Enn vantar Reykjavíkurbréfið í sunnudagsmogggann

Skyldulesning

Stundum er Mogginn hundleiðinlegur. Sérstaklega þegar hann Davíð Oddsson gleymir að skila Reykjavíkurbréfinu í sunnudagsblaðið, rétt eins og núna. Hvernig er hægt að byrja nýja viku án Reykjavíkurbréfsins? Jafnvel þó Davíð sé að mæra Trump og atyrða nýja forseta Bandaríkjanna sem ég man aldrei hvað heitir.

Þessi pistill er um slæmt minni, gleymsku.

Uppáhalds fyrrverandi sjónvarpsmaður þjóðarinnar skrifar pistil í sunnudagsblaðið, hann þarna … Logi eitthvað. Hann skrifar stundum ansi vel, góður stílisti. Gerir sig stundum vitlausari en ég held að hann sé. Nú skrifar hann um blaðburðarbörn. Í gamla daga bar hann út blöð og minningin um iðjuna er ljúf og fögur í huga hans. Hann segir frá því að hafa þröngvað dóttur sinni til að bera út blöð og safna þannig peningum til að kaupa hross. Logi þessi er auðvitað orðinn að afgömlu hrossi. Skil ekki í honum eða öðrum sem lesa pappírsdagblöð. Hef ábyggilega verið áskrifandi að Mogganum í fimmtán án þess að fá pappírseintak. Les hann á netinu. Hreinlegra og einfaldara.

Í gamla daga bar ég út Vísi. Það var ágætt en hundleiðinlegt að rukka. Ég gekk í Hlíðaskóla eftir að hafa útskrifast með láði úr Ísaksskóla. Strákarnir í bekknum mínum voru stundum óþekkir. Ekki ég. Var gæðablóð, hlýðinn og kurteis. Minnir mig. Einu sinni voru hinir strákarnir óþekkir í smíðatíma hjá honum Birni, ekki ég. Í refsingarskyni vorum við allir látnir sitja eftir, í marga klukkutíma. Minnir mig. Þá komst ég ekki í að bera út Vísi á réttum tíma. Það var í eina skiptið sem ég fékk kvartanir frá blaðinu. Lesendur vildu fá blaðið strax eftir hádegi. Eftir þetta var ég alltaf fúll út í Björn smíðakennara, er það jafnvel enn þann dag í dag, og er hann samt löngu hættur kennslu og farinn yfir móðuna miklu.

Óboj, sögðum við í gamla daga og var tónninn mæðulegur. Þetta varð mér ósjálfrátt að orði er ég sá að aðalviðtal sunnudagsblaðs Moggans var við Björgvin þarna hvað hann nú heitir Halldórsson, söngvara. Þetta fjölmiðlalið er alltaf samt við sig. Þúsund sinnum hafa verið tekin viðtöl við Bjögga og við lesendur vitum eiginlega allt um manninn. Miklu meira en hollt er. Hvað er eiginlega ósagt um hann? Ekkert. Ég lét augun hvarfla yfir viðtalið. Þau staðnæmdumst við þetta og athyglin vaknaði:

Annars átti það nám vel við mig; ég hef alltaf verið mikill græju- og tölvukarl. Macintosh-maður frá upphafi. Svo því sé til haga haldið. Ég hef alltaf fylgst vel með í tækninni og mönnum á borð við Steve Jobs og Elon Musk sem gert hafa mikið fyrir okkur

með þekkingu sinni, dirfsku og framsýni.

Allt í einu finnst mér Bjöggi vera bara ágætur söngvari. Ég er líka forfalli Makka-kall, frá upphafi. Og núna gaf ég mér tíma til að lesa allt viðtalið. Sá þá að einn ritfærasti blaðamaður landsins hafði tekið það. Man aldrei hvað hann heitir, þarf ekki að vita það, ég þekki stílinn. Nöfn skipta litlu en hann heitir Orri eitthvað. Minnir mig (sérstaklega þetta „eitthvað“). Maðurinn skrifar næstum því hálft sunnudagsblaðið og heldur því eiginlega á floti þó ýmislegur hégómi eins og stjörnuspár og grein um föt dragi það niður.

Sá ágæti blaðamaður Andrés Magnússon heldur sínum vana og skrifar algjörlega óþarfan pistil um atburði vikunnar. Skil ekki þörfina á svona upprifjun, ekki frekar en „fréttaannál ársins“ og álíka. Þó ég muni aldrei neitt finnst mér dálkurinn skrýtinn. Hér eru dæmi:

  • Mikill fjöldi afbókaði dvöl í orlofshúsum um páskana, án vafa vegna hertra sóttvarna. 
  • Fjórir hafa gefið kost á sér til þess að gegna embætti umboðsmanns Alþingis …
  • Þriðja þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið til landsins …
  • Risastór landfylling er fyrirhuguð í Elliðaárvogi undir stækkun Bryggjuhverfis.

Þetta er svo hrikalega óskemmtilegt að það truflar mig. Er það virkilega svo að ekki væri hægt að nota plássið til að tala við enn einn heimsfrægan Íslendinginn, Ladda, Kristján stórsöngvara, landsliðsmann í fótbolta, snoppufrítt andlit úr sjónvarpi, álitsgjafa með ofurþykkar bótox-varir og barm í stíl, og önnur undur í þjóðfélaginu?

En þetta er nú allt aukaatriði. Sem áskrifandi spyr ég einfaldrar spurningar og vil frá svar: Hvar er Reykjavíkurbréfið? Mér finnst ég svikinn og krefst endurgreiðslu.


spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir