4 C
Grindavik
5. mars, 2021

Enska úrvalsdeildin: Everton vann Leicester – Leeds skoraði fimm mörk

Skyldulesning

Þremur leikjum er lokið í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld. Everton vann sterkan útivallarsigur á Leicester City og Pierre-Emerick Aubameyang var á skotskónum í 1-1 jafntefli Arsenal við Southampton. Þá vann Leeds sannfærandi 5-2 sigur á Newcastle. Lestu um úrslit kvöldsins hér.

Arsenal tók á móti Southampton á Emirates Stadium í Lundúnum.

Gamli Arsenal maðurinn, Theo Walcott, kom Southampton yfir með marki á 21. mínútu eftir stoðsendingu frá Che Adams.

Þannig stóðu leikar allt þar til á 52. mínútu þegar Pierre-Emerick Aubameyang, jafnaði metin fyrir Arsenal eftir frábæran undirbúning frá Bukayo Saka.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum sem endaði með 1-1 jafntefli. Arsenal situr í 15. sæti deildarinnar með 14 stig.. Southampton er í 3. sæti með 24 stig.

Leeds United tók á móti Newcastle United á Elland Road. Gestirnir frá Newcastle komust yfir með marki frá Jeff Hendrick á 26. mínútu. Rúmum níu mínútum síðar jafnaði Patrick Bamford metin fyrir Leeds.

Það var síðan spænski framherjinn Rodrigo sem kom heimamönnum í Leeds yfir með marki á 61. mínútu. Forysta heimamanna entist þó ekki lengi því aðeins fjórum mínútum eftir mark Rodrigo, jafnaði Ciaran Clark leikinn fyrir Newcastle.

Það gafst síðan tími fyrir fleiri mörk í viðbót. Á 78. mínútu skoraði Stuart Dallas þriðja mark Leeds, Esgjan Alioski bætti við fjórða marki liðsins á 85. mínútu og það var síðan Jack Harrison sem innsiglaði 5-2 sigur Leeds United.

Sigurinn kemur Leeds upp í 14. sæti þar sem liðið er með 17 stig. Newcastle er í 13. sæti, einnig með 17 stig.

Í Leicester tóku heimamenn á móti Everton. Gylfi Þór Sigurðsson var í byrjunarliði Everton og bara fyrirliðabandið í leiknum.

Richarlison kom Everton yfir með marki á 21. mínútu. Þannig stóðu leikar allt þar til á 73. mínútu þegar Mason Holgate tvöfaldaði forystu Everton.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum sem endaði með 0-2 sigri Everton. Sigurinn kemur liðinu upp í 5. sæti deildarinnar þar sem liðið er með 23 stig. Leicester er í 4. sæti deildarinnar með 24 stig.

Arsenal 1 – 1 Southampton 


0-1 Theo Walcott (’18)


1-1 Pierre-Emerick Aubameyang (’52)

Leeds United 5 – 2 Newcastle United 


0-1 Jeff Hendrick (’26)


1-1 Patrick Bamford (’35)


2-1 Rodrigo (’61)


2-2 Ciaran Clark (’65)


3-2 Stuart Dallas (’77)


4-2 Ezgjan Alioski (’85)


5-2 Jack Harrison (’88)

Leicester City 0 – 2 Everton 


0-1 Richarlison (’21)


0-2 Mason Holgate (’73)

Enski boltinn á 433 er í boði

Innlendar Fréttir