enska-urvalsdeildin:-man-utd-missteig-sig-gegn-burnley-–-everton-sogast-i-fallbarattu

Enska úrvalsdeildin: Man Utd missteig sig gegn Burnley – Everton sogast í fallbaráttu

Burnley tók á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Man Utd var mun betri aðilinn í fyrri hálfleik. Raphael Varane kom boltanum fyrst í netið á 12. mínútu með góðum skalla. Var markið hins vegar dæmt af með hjálp myndbandsdómgæslu þar sem rangstæður Harry Maguire var talinn hafa áhrif í aðdragandanum.

Paul Pogba skoraði þó fullkomlega löglegt mark á 18. mínútu með góðu skoti. Staðan í hálfleik var 0-1 og gátu heimamenn verið fegnir að útlitið væri ekki svartara fyrir þá.

Það kom hins vegar allt annað lið Burnley út í seinni hálfleik. Skoraði Jay Rodriguez jöfnunarmark strax á 47. mínútu.

Burnley sótti töluvert eftir markið en tókst ekki að koma boltanum í netið að nýju.

Gestirnir tóku aðeins aftur við sér síðasta hluta leiksins en fundu ekki sigurmark. Lokatölur 1-1.

Man Utd er í fimmta sæti deildarinnar með 39 stig, stigi á eftir West Ham sem er í Meistaradeildarsæti. Burnley er áfram á botninum með 14 stig.

Mynd/Getty

Á sama tíma tók Newcastle á móti Everton. Fyrsta mark leiksins kom á 36. mínútu þegar Jamaal Lascelles, varnarmaður heimamanna, setti boltann í eigið net. Staðan var þó orðin jöfn aðeins örskömmu síðar þegar Mason Holgate gerði sjálfsmark hinum megin.

Ryan Fraser kom Newcastle yfir á 56. mínútu. Tíu mínútum fyrir leikslok skoraði svo Kieran Trippier, sem kom til Newcastle frá Spánarmeisturum Atletico Madrid í janúar, mark beint úr aukaspyrnu. Lokatölur 3-1

Newcastle er nú komið upp úr fallsæti. Liðið situr í sautjánda sæti með 18 stig, stigi á eftir Everton sem er sæti ofar.

Trippier fagnaði vel og innilega. Mynd/Getty

Loks vann West Ham 1-0 heimasigur á Watford. Jarrod Bowen gerði eina mark leiksins á 68. mínútu.

West Ham er í fjórða sæti deildarinnar með 40 stig.

Jarrod Bowen fagnar marki sínu. Mynd/Getty

Enski boltinn á 433 er í boði


Posted

in

,

by

Tags: