Crystal Palace tók á móti Arsenal á Selhurst Park í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
Heimamenn fóru vel af stað og komust í forystu á 16. mínútu þegar Jean-Philippe Mateta skoraði eftir skalla Joachim Andersen. Jordan Ayew tvöfaldaði svo forskot Palace manna átta mínútum síðar með glæsilegri afgreiðslu og staðan í hálfleik 2-0.
Gestirnir gerðu breytingu í upphafi síðari hálfleiks þegar Gabriel Martinelli kom inn í liðið í stað Nuno Tavares. Arsenal byrjaði síðari hálfleikinn mun betur en þann fyrri en tókst ekki að koma boltanum í netið.
Crystal Palace lá til baka og beitti skyndisóknum og uppskar þriðja markið þegar Wilfried Zaha fiskaði vítaspyrnu á 73. mínútu. Fílabeinsstrendingurinn fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi og lokatölur 3-0.
Arsenal er í fimmta sæti deildarinnar með 54 stig, jafnmörg stig og Tottenham í fjórða sætinu en Tottenham er með betri markatölu. Arsenal á þó leik til góða á nágranna sína. Crystal Palace situr í 9. sæti með 37 stig.