Manchester United tók á móti Leicester í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.
Ekkert var skorað í fyrri hálfleik. Heimamenn voru meira með boltann en leikmenn Leicester virtust hættulegri fram á við.
Á 63. mínútu kom Kelechi Iheanacho gestunum yfir eftir flotta fyrirgjöf James Maddison.
Forystan lifði aðeins í um þrjár mínútur þar til Fred jafnaði metin fyrir Man Utd.
Maddison kom boltanum í netið á 80. mínútu en var mark hans dæmt af með hjálp myndbandsdómgæslu þar sem Iheanacho hafði gerst brotlegur í aðdragandanum.
Fleiri urðu mörkin ekki. Lokatölur á Old Trafford 1-1.
Man Utd situr í sjötta sæti deildarinnar með 51 stig, 3 stigum frá Meistaradeildarsæti. Arsenal, sem situr í fjórða sætinu núna, á tvo leiki til góða á Man Utd.
Leicester siglir lignan sjó, er í níunda sæti með 37 stig.