Er saga Kvenna­skólans í Reykja­vík ekki neins virði? – Vísir

0
122

Þengill Fannar Jónsson skrifar 4. maí 2023 13:31

Nú er komin upp sú staða að menntamálaráðuneytið hefur lagt til að sameina Menntaskólann við Sund og Kvennaskólann í Reykjavík í húsnæði gamla kennaraskólans í Stakkahlíð.

Þessa hugsun má eflaust rekja til þess að ríkissjóður er rekinn í halla og það þarf að skera niður í skólamálum og þessi lausn gæti hugsast góð hvað varðar að spara pening án þess að draga úr skólahaldi.

Þó það sé margt sem ég og aðrir sem hafa stundað nám við Kvennaskólann höfum út á þessa hugmynd að setja standa ákveðin atriði framar öðrum. Það sem hefur ekki verið ígrundað nægilega í þessu máli er hlutverk og merking menningarlegrar arfleiðar Kvennaskólans í Reykjavík.

Kvennaskólinn var stofnaður árið 1874 í skólahúsnæði sem var endurbyggt á sama stað árið 1878. Til samanburðar hófst skólahald Menntaskólans í Reykjavík (MR) í gamla skóla árið 1846. Saga beggja skóla á þeim stöðum sem þeir standa nú er gríðarlega mikilvæg fyrir sögu menntamála á Íslandi.

Allt frá stofnun Kvennaskólans hefur hann verið stoð og stytta fyrir réttindi kvenna til að stunda nám og er saga Kvennaskólans þar af leiðandi ekki einungis mikilvæg vegna aldurs skólans. Sagan er mikilvæg í samhengi kvenréttindabaráttunnar á Íslandi. Skólar á Íslandi tóku ekki að sér kvenkyns nemendur og var því stofnaður skóli sérstaklega til að kenna stúlkum. Þóra Melsteð, annar stofnandi skólans var svo fyrsta forstöðukona Kvennaskólans og sú sem tók við af henni var engin önnur en Ingibjörg H. Bjarnason fyrsta alþingiskona íslands. Sú hugmynd að taka út fyrir sviga merkingu og mikilvægi þessarar sögu einungis til hagræðingar er einfaldlega út í hött.

Stóra áhyggjuefnið í þessum áformum er að MR, nágrannaskóli Kvennaskólans sem, eins og áður greinir frá hefur mikilvæga sögu í menntamálum á íslandi hefur ekki verið boðinn fram til sameiningar við aðra skóla. Ástæða þess er eflaust vegna sögu skólans og þeirra bygginga sem skólinn er hýstur í. Það er að segja nákvæmlega sömu ástæður sem segja til um það að ekki eigi að loka dyrum Kvennaskólans þar sem hann stendur nú. Ég ætla ekki að koma með neinar ásakanir hvað varða ástæður þess að Kvennaskólinn varð fyrir valinu en ekki MR en ég ætla þó að segja þetta.

Ef Þessi hugmynd verður að veruleika yrði hún lituð af hugsunarleysi og tómlæti gagnvart sögu skólahalds á Íslandi og ekki síst gagnvart kvenréttindabaráttu Íslendinga.

Höfundur er fyrrverandi nemandi við Kvennaskólann í Reykjavík. 

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.