Erfðaefni Beethoven varpar ljósi á dánarorsök hans – DV

0
124

Rannsókn á fimm hárlokkum af höfði tónskáldsins Ludwig van Beethoven hefur varpað ljósi á líklega dánarorsök hans. Rannsóknin leiddi í ljós að líklega lést tónskáldið af völdum lifrarsjúkdóms en ekki blýeitrunar eins og áður var talið. Live Science segir að Beethoven hafi verið með lifrarbólgu B þegar hann lést. Það er niðurstaða þessarar fyrstu rannsóknar á erfðaefni þessa heyrnarlausa tónskálds.

Þrjár rannsóknir voru gerðar á hárlokkunum fimm en þeir voru teknir af höfði hans á síðustu sjö árum lífs hans. Voru lokkarnir hugsaðir sem minjagripir. Rannsóknirnar leiddu í ljós að Beethoven var í mikilli hættu á að fá lifrarsjúkdóm.

Þessi erfðafræðilega hætta ásamt lifrarbólgu B, sem skemmdi líklega lifur hans, gæti hafa átt þátt í dauða hans. Þetta gengur þvert á fyrri kenningar um að blýeitrun hafi orðið honum að bana. En rannsóknirnar vörpuðu ekki ljósi á af hverju hann missti heyrnina.

Beethoven, sem fæddist 1770, byrjaði að missa heyrnina þegar hann nálgaðist þrítugt og var orðinn alveg heyrnarlaus þegar hann nálgaðist fimmtugt. Hann glímdi einnig við meltingarvandamál og fékk tvisvar sinnum gulu, sem er einkenni lifrarsjúkdóms.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru nýlega birtar í vísindaritinu Current Biology. Í tilkynningu sagði Johannes Krause, prófessor í erfðafræði við Max Planck stofnunina, að ekki sé hægt að segja með fullri vissu hvað varð Beethoven að bana en það sé hægt að staðfesta að hann hafi verið í mikilli hættu á að fá lifrarsjúkdóm og hafi verið með lifrarbólgu B.