10.2 C
Grindavik
24. júní, 2021

Erfiðar aðstæður á Seyðisfirði: „Það er bara vatn alls staðar“

Skyldulesning

Enn er mikil úrkoma og bleyta á Seyðisfirði þar sem tvær aurskriður féllu í nótt. Urð, grjót og drulla er úti um allt í bænum en eiginlegt hreinsunarstarf getur ekki hafist fyrr en það dregur úr úrkomunni og birtir til.

Ljóst er að aðstæður í bænum eru erfiðar og svo virðist sem seinni skriðan sem féll í nótt hafi verið mun stærri en aðrar skriður sem höfðu fallið áður í vikunni enda hreif hún með sér heilt einbýlishús og flutti það til um fimmtíu metra að því er talið er.

Húsið var mannlaust en ekki er búið í því að staðaldri. Þá var það inni á rýmingarsvæði þar sem það hafði lent í annarri skriðu fyrr í vikunni. Talið er að húsið sé ónýtt.

Sunna Karen Sigurþórsdóttir, fréttamaður, og Egill Aðalsteinsson, myndatökumaður, voru á ferðinni um bæinn nú í morgunsárið og ræddu meðal annars við Davíð Kristinsson, varaformann björgunarsveitarinnar Ísólfs.

Hann segir ástandið ekki gott og verið sé að ákveða með næstu skref. Ekki sé alveg vitað hvað taki við í birtingu en meðal annars þarf að kanna hvort fleiri skriður hafi fallið sem ekki sjáist í myrkrinu nú.

Davíð kveðst ekki hafa upplifað svona mikla rigningu áður.

„Þetta er búið að vera mjög lengi, mjög mikið þannig að nei, ekki svo ég man eftir,“ segir Davíð.

Talið er að einbýlishúsið sem skriðan hreif með sér sé ónýtt. Ekki var búið þar að staðaldri heldur var það nýtt sem sumarhús.Vísir/Egill

Aðspurður hvort holræsakerfi bæjarins þoli þennan mikla vatnselg segir hann að aukið hafi verið við dælubúnaðinn.

„Við höfum náttúrulega dælt upp úr brunakerfinu til að halda í við – þannig að það er búið að auka dælur og bæta við en það er bara vatn alls staðar,“ segir Davíð.

Hann segir björgunarsveitina vel mannaða og hefur ekki áhyggjur af því að hafa ekki nægan mannskap til þess að sinna hreinsunar- og björgunarstarfi.

Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi vegna mikilla rigninga á Austfjörðum. Hættustig almannavarna er í gildi á Seyðisfirði og óvissustig í gildi annars staðar í landshlutanum.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir