2 C
Grindavik
24. nóvember, 2020

Eru bara tveir Íslendingar hæfir í starfið?

Skyldulesning

Guðni Bergsson formaður KSÍ og stjórn sambandsins mun á næstu dögum fara í þau mál að finna nýjan landsliðsþjálfara fyrir A-landslið karla. Samningur Erik Hamren er á enda eftir leikinn við England á morgun og hefur hann ekki áhuga á að stýra liðinu áfram.

Hamren greindi frá því um helgina að hann hefði ákveðið að stíga til hliðar eftir að íslenska liðinu mistókst að komast inn á Evrópumótið næsta sumar.

Margir velta því fyrir sér nú hver verður ráðinn í starfið nú þegar ljóst er að einhver kynslóðaskipti eru á næsta leyti. „Landsliðsfyrirliðinn sagði á blaðamannafundi um daginn að gullkynslóðin ætti nóg eftir. Metnaður okkar bestu manna virðist vera til staðar og ef þeir hafa enn hungur í að reyna við annað stórmót verður ráðning næsta þjálfara að ríma við þann metnað,“ sagði Tómas Þór Þórðarson ritstjóri enska boltans við Fréttablaðið um hugsanlegan arftaka Hamren.

Í huga Tómasar eru bara tveir íslenskri þjálfarar hæfir í starfið. „Eini Íslendingurinn, að mínu mati, sem á að vera á blaði er Heimir Hallgrímsson og mögulega Freyr Alexandersson vegna sinna starfa með landsliðinu.“

Tómas segir að KSÍ verði að passa sig á því að láta ekki hugsun um krónur og aura minnka metnaðinn í kringum liðið. „Nöfn eins og Rikard Norling og Bo Henriksen gætu verið spennandi kostir. KSÍ þarf að huga að ýmsu í þessari ráðningu. Að sjálfsögðu þarf að passa budduna en það má ekki láta krónur og aura minnka metnaðinn í ráðningunni því árangur A-landsliðs karla er helsti tekjuliður sambandsins.“

Innlendar Fréttir