Eru geimverur til? – DV

0
112

Eru geimverur til? Þetta er líklegast ein stærsta spurningin sem leitar á mannkynið. Óvissan um hvort við erum einu vitsmunaverurnar í alheiminum fer misjafnlega í fólk. Sumum er alveg sama en aðrir vilja gjarnan fá svar við þessari spurningu. Við höfum ekki fundið neinar sannanir fyrir tilvist lífs á öðrum plánetum en vísindamenn hafa ekki gefið upp alla von um að slíkar sannanir finnist.

Alheimurinn er gríðarlega stór og þrátt fyrir að við höfum ekki fundið neinar sannanir fyrir lífi á öðrum plánetum þá þýðir það ekki að líf sé ekki að finna á öðrum plánetum.

Alheimurinn er um 13,8 milljarða ára gamall og í honum eru billjónir ef ekki trilljónir af plánetum. Við vitum aðeins um líf á einni plánetu, jörðinni okkar.

Mikil vinna og fjármunir hafa verið, og eru nú lagðir, í leit að vitsmunalífi utan jarðarinnar og vísindamenn koma sífellt fram með nýjar aðferðir og hugmyndir varðandi þessa leit.

Í umfjöllun Live Science um málið kemur fram að fyrstu tilraunirnar við að leita að lífi utan jarðarinnar hafi hafist töluvert áður en við gátum ferðast út fyrir jörðina. Uppfinning útvarps opnaði fyrir möguleikann á að senda skilaboð til annarra pláneta. Uppfinningamennirnir Nikola Tesla og Guglielmo Marconi töldu sig báðir hafa heyrt skilaboð frá mars snemma á tuttugustu öldinni.

Leitaraðferðunum hefur fleygt fram, tæknilega séð, í gegnum áratugina og nú er meðal annars notast við Allen Telescope Array, sem er net 42 loftneta, sem geta numið örbylgjusendingar í Vetrarbrautinni.

SETI-stofnunin er nú að fara að gera tilraunir til að reyna að nema merki sem vitsmunaverur gætu hafa sent út í geiminn.

En þegar við horfum á næsta nágrenni okkar þá er Marsbíllinn Perseverance að störfum á Mars og leitar að steingervingum eða sameindum sem gætu gefið vísbendingar um að líf hafi þrifist á Mars fyrir milljörðum ára þegar þar var hlýrra og blautara.