-5 C
Grindavik
3. desember, 2020

Fá hátt verð fyrir hrogn síldarinnar

Skyldulesning

Á síldveiðum.

Á síldveiðum.

mbl.is/Friðþjófur Helgason

Spurn eftir síldarhrognum frá Noregi hefur verið meiri í ár heldur en nokkru sinni áður og verðið hefur hækkað í samræmi við eftirspurnina.

Ástæða þessa er einkum talinn skortur á loðnuhrognum, en ekkert hefur verið veitt af loðnu við Ísland í ár og í fyrra og sömu sögu er að segja úr Barentshafi. Síldarhrognin eru meðal annars notuð sem toppar á sushi-rétti.

Frá þessu er greint á heimasíðu Norges Sjømatråd, sem á íslensku hefur meðal annars verið kallað útflutningsráð norska sjávarútvegsins. Í byrjun október var búið að flytja út 5.300 tonn af síldarhrognum frá Noregi í ár og verðmæti afurðanna nam 392 milljónum norskra króna eða tæplega sex millljörðum íslenskra. Aukningin frá síðasta ári er um 40% í magni og 142% í verðmætum. Allt að 100 krónur norskar hafa fengist fyrir kílóið, en mest eftirspurn hefur verið í Suður-Kóreu, Kasakstan og Japan.

Fram kemur í frétt Norges Sjømatråd að samkvæmt hefð hafi loðnuhrogn frá Íslandi verið notuð sem „topping“ á sushi-rétti. Þar sem þau séu ekki fyrir hendi um þessar mundir sé tilvalið að nota hrogn síldarinnar, sem séu áþekk hvað varði bragð og lit.

Innlendar Fréttir