fa-oskertar-greidslur-fra-manadarmotum

Fá óskertar greiðslur frá mánaðarmótum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. mbl.is/Eggert

„Ég fagna þessari niðurstöðu. Þetta er góð niðurstaða fyrir þennan hóp, sem er með ein lökustu kjör örorkulífeyrisþega. Í mínum huga er það mjög jákvætt að þetta sé komið á hreint,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra um dóm öryrkja gegn ríkinu, í samtali við mbl.is

Á miðvikudag dæmdi Hæstiréttur ólögmæta þá framkvæmd Tryggingastofnunar að skerða sérstaka framfærsluuppbót til einstaklings á þeim forsendum að bótaþegi hafi búið hluta starfsævi sinnar í útlöndum.

Guðmundur hefur nú þegar brugðist við dómnum og fellt reglugerðarákvæðið á brott sem kvað á um skerðinguna. 

Málið fordæmisgefandi

„Það er mat ráðuneytisins að málið sé fordæmisgefandi, það er að segja það sama gildi fyrir aðra einstaklinga sem eru í sömu stöðu, þau sem hafa fengið skerta sérstaka uppbót vegna framfærslu á grundvelli búsetuhlutfalls á Íslandi,“ segir Guðmundur.

„Það þýðir að framvegis mun Tryggingastofnun greiða sérstaka uppbót vegna framfærslu án þess að til skerðinga komi þó svo að fólk hafi búið hluta ævinnar erlendis. Tryggingastofnun hefur þegar hafið vinnu þannig að hægt verði að greiða samkvæmt nýrri reglugerð strax í maímánuði.“

Skoða að greiða aftur í tímann

„Næstu skref eru að skoða greiðslur aftur í tímann og sú vinna er hafin milli félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og fjármálaráðuneytis. Því liggur ekki nákvæmlega fyrir til hve margra málið nær eða hvað það kostar nákvæmlega.“

Af hverju mátti ekki fara í þetta fyrr, af hverju þurfti þetta að fara í gegnum þrjú dómstig?

„Það var mat lögfræðinga að það þyrfti að láta reyna á ákveðna þætti til að þetta væri alveg skýrt. Ég skil þetta sjónarmið hjá fólki, en ákvörðunin að áfrýja þessu er ákvörðun sem var tekin áður en ég tók við í ráðuneytinu,“ segir Guðmundur Ingi.

„Aðalmálið núna er að það verður greitt frá næstu mánaðarmótum í samræmi við dóminn.“


Posted

in

by

Tags: