0 C
Grindavik
20. janúar, 2021

Fær ekki svör um íbúðaeign bankanna

Skyldulesning

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins.

mbl.is/Hari

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur svarað þremur fyrirspurnum Ólafs Ísleifssonar, þingmanns Miðflokksins, um fjölda íbúða sem Íslandsbanki, Landsbanki og félög þeim tengdum eignuðust á árunum 2008-2019, með því að ekki sé hægt að krefja bankana um þessar upplýsingar.

Því sé ekki hægt að svara spurningunum efnislega.

Ólafur lagði fyrirspurnir sína fram í þremur aðskildum fyrirspurnum. Sú fyrsta náði til Íslandsbanka og 92 útibúa og undirfélaga bankans, svo sem Ergo fjármögnunar. Önnur fyrirspurnin náði til Landsbankans og 62 útibúa og undirfélaga bankans.

Sú þriðja náði til 39 dótturfélaga og fjárfestingafélaga sem Landsbankinn átti að hluta eða öllu leyti. Má þar meðal annars nefna SP fjármögnun, Hömlur, Horn og Smárabyggð.

Geti ekki krafist upplýsinga

Svör ráðherra voru næsta samhljóða og var vísað til þess að þingmenn geti óskað upplýsinga um „sérhvert málefni er tengist hlutverki og starfsemi ríkisins og stofnana þess, svo og félaga og annarra lögaðila sem eru að hálfu eða meira í eigu ríkisins og annast stjórnsýslu eða veita almenningi opinbera þjónustu á grundvelli laga, stjórnvaldsfyrirmæla eða samnings“.

Þar sem bankarnir og tengd félög þeirra eru ekki ríkisstofnanir eða félög sem annist stjórnsýslu eða veiti opinbera þjónustu í skilningi ákvæðis um þingsköp Alþingis, þá geti ráðuneytið ekki krafist þess að bankarnir eða félögin veiti þær upplýsingar sem óskað er eftir.

Innlendar Fréttir