7 C
Grindavik
23. apríl, 2021

Fékk að kveðja pabba

Skyldulesning

Rögnvaldur Ólafsson og Helga Rósa Másdóttir hafa staðið í ströngu …

Rögnvaldur Ólafsson og Helga Rósa Másdóttir hafa staðið í ströngu á þessu ári. Bæði leggja þau mikið á sig í sínum störfum í þágu almennings á þessum skrítnu kórónuveirutímum.

mbl.is/Ásdís

Helga Rósa og Rögnvaldur buðu blaðamanni inn á fallegt heimili þeirra í Garðabænum einn dimman og kaldan eftirmiðdag í nóvember. Á heimilinu er líf og fjör, enda búa þar þrír fallegir bræður, þeir Bjartur þriggja ára, Ari fimm ára og Már sjö ára. Drengirnir fóru upp að leika til að gefa foreldrum smá næði til að spjalla við gestinn. Hjónin hafa staðið í ströngu þetta árið og þurft á öllum sínum styrk að halda, en bæði eru þau í krefjandi störfum þar sem kórónuveiran hefur leikið stærra hlutverk en hjá okkur hinum.

Fáum borgað fyrir svartsýni

Rögnvaldur hefur verið í lögreglunni í 28 ár, þar af síðustu fimmtán ár í almannavarnadeild. Hann segir að í starfinu felist að halda utan um æfingar og þjálfunarmál fyrir alla viðbraðsaðila eins og lögreglu, slökkviliðsmenn, björgunarsveitir og Rauða krossinn. Einnig sinnir hann gerð áætlana, kennir námskeið og sækir fundi og námskeið á erlendum vettvangi.

„Við gerðum heimsfaraldursáætlun árið 2006 og þurftum að nota hana 2009 þegar svínaflensan gekk hér,“ segir hann og segir þau hafa til dæmis skoðað vel spænsku veikina.

„Við fáum borgað fyrir að vera svartsýn. Við hugsum um allt það versta sem gæti gerst og reynum að undirbúa okkur fyrir það, en það er allt á bak við tjöldin. Enda er best að fólk geti verið rólegt í sínum lífum og við getum svo brugðist við ef á þarf að halda,“ segir hann.

Helga Rósa segir þau á bráðamóttöku hafa þurft að undirbúa sig hratt þegar kórónuveiran hélt innreið sína hingað til lands.

„Það var rosalega vinna í upphafi því þetta var svo óþekkt. Þetta var kapphlaup að fá nýjar upplýsingar, teikna upp verklagið, búa til leiðbeiningar og breyta húsnæði. Þegar maður hugsar til baka sér maður að þetta var tryllt vinna. Manni leið eins og maður væri í maraþonhlaupi þar sem maður vissi ekki kílómetrafjöldann og maður hljóp í spretti,“ segir Helga Rósa.

Helga Rósa og Rögnvaldur eiga þrjá syni, þá Má, Ara …

Helga Rósa og Rögnvaldur eiga þrjá syni, þá Má, Ara og Bjart. Öll fjölskyldan greindist með Covid í október og í sama mánuði lést faðir Helgu Rósu.

mbl.is/Ásdís

Í vor þegar fyrsta bylgjan gekk yfir unnu bæði hjónin mikið. Helga kom þá heim upp úr sex á kvöldin og Rögnvaldur dreif sig þá aftur í vinnu, en auðvitað þurfti að sinna þremur litlum drengjum heima fyrir.

„Svona gekk þetta í margar vikur.“

Flækjustigið jókst

Helga Rósa var nýtekin við sem yfirmaður, en segist hafa dyggan stuðning samstarfsfólks.

„Flækjustigið jókst, því við þurftum að taka á móti öllum í raun eins og þau væru með Covid. Við fengum inn í upphafi nokkra sjúklinga með ódæmigerð einkenni Covid sem reyndust síðan vera með Covid og misstum því starfsfólk í sóttkví. Þá tókum við ákvörðun um að sinna öllum í fullum hlífðarfatnaði. Það gerðum við þarna í upphafi. Það var mjög erfitt, en velvildin sem okkur var sýnd var ótrúleg. Það rigndi inn gjöfum til okkar á kaffistofuna; ís, drykkjum, prótínstykkjum og fleiru. Það gerði mjög mikið fyrir andann,“ segir hún.

Hræddur við að sjá lík

Ætlaðir þú alltaf að verða lögga?

„Nei nei. Ég var bara vandræðabarn í Bolungarvík og hefði örugglega verið greindur með eitthvað ef það hefði verið gert þá,“ segir hann og brosir.

Rögnvaldur segist hafa róast á unglingsárunum en vissi lítið hvað hann vildi verða þá. Hann ákvað þó að klára stúdentspróf og fór í Menntaskólann á Ísafirði en endaði í Iðnskólanum í rafvirkjun. Hann sótti svo um sumarvinnu hjá lögreglunni á Ísafirði.

„Svo fékk ég vinnu um sumarið og þá ákvað ég að þetta væri sniðugur kostur og kannski spilaði skólaleiði inn í. Ég þurfti annaðhvort að taka fjögur ár í viðbót í rafvirkjun eða tvær annir í lögregluskólanum, sem var þá námið,“ segir hann.

Hjónin hafa staðið í ströngu á árinu enda bæði í …

Hjónin hafa staðið í ströngu á árinu enda bæði í framlínustörfum.

mbl.is/Ásdís

Hann segist þó hafa verið í byrjun mjög hræddur við að sjá lík.

 „Auk þess var ég mjög hræddur við að sjá blóð. Svo var ég allt í einu kominn í þetta starf og maður skiptir bara um gír. Við erum oft fyrst á vettvang. Það léttir öllum þegar löggan er komin þannig að maður þarf að standa sig. Þannig að ég „feikaði það þar til ég meikaði það“.

Hryllingur hefur áhrif

Helga Rósa hefur einnig séð og upplifað margt sem situr í sálinni.

„Ég man það að fyrst var maður „spældur“ þegar komu í hús erfið slys ef maður var ekki á vaktinni. Maður var að missa af. En þetta breyttist með aldrinum og eftir að ég átti strákana. Ef ég þarf ekki að sjá hlutina, sækist ég ekki eftir því. Ég er búin að sjá nógu mikinn hrylling og það gleymist aldrei. Og þótt maður sé rólegur og faglegur, þá hefur það áhrif. Þess vegna skiptir miklu máli að heilbrigðisstarfsfólk sé hraust á sál og líkama og það sé haldið vel utan um það. Þetta eru oft ekki auðveldar aðstæður sem við erum að horfa á fólk í,“ segir hún.

„Það situr stundum hryllingur í manni.“

Það þarf að hjálpa fólki

Rögnvaldur hefur einnig upplifað að þurfa að leggja sig í hættu fyrir aðra.

„Í vinnunni hef ég oft lent í lífshættu, en ég er enginn adrenalínfíkill. Þetta er vinnan manns og þetta eru verkefni sem þarf að leysa. Það er einhver í vanda og það þarf að hjálpa fólki. Maður gerir það bara,“ segir hann og segist oft hafa þurft að fara inn á hættuvæði snjóflóða.

„Ég hef líka þurft að nálgast og tala við vopnað fólk. Eitt sinn var einn með tvo hnífa og það var ekkert hægt að hlaupa í burtu. Ég þurfti bara að tala manninn til og vona það besta. Róa ástandið. Þetta gerðist fyrir löngu og kannski fannst manni maður líka ódrepandi sem ungur maður,“ segir Rögnvaldur og brosir.

Hvernig sofið þið á nóttinni með allar þessar minningar í kollinum?

„Það eru aðallega hroturnar í Rögnvaldi sem halda fyrir mér vöku,“ segir Helga Rósa og hlær.

„Svo eigum við þrjá stráka sem koma stundum upp í. En auðvitað koma af og til upp mál sem sitja í manni og ég man eftir málum sem ég sofna með á koddanum og vakna með að morgni. En það er ekki oft,“ segir Helga Rósa.

„Við eigum líka svipaðan reynsluheim og það er gott að tala saman um svona mál,“ segir Rögnvaldur.

Þetta var rosalegt sjokk

Hjónin fengu bæði Covid í október og hafa því heldur betur upplifað að vera báðum megin við borðið.

„Ég greindist fyrst,“ segir Helga Rósa en einni og hálfri viku áður hafði komið upp smit í leikskólanum hjá tveimur yngstu sonunum.

„Ég hugsaði með mér að ég væri að fá smá hálsbólgu og ákvað að drífa mig í sýnatöku svo ég gæti fengið neikvætt svar svo ég gæti mætt í vinnuna. Svo kom jákvætt svar seinna um kvöldið. Þetta var rosalegt sjokk. Ég bara trúði þessu ekki! Ég sem fer varlegast af öllum. Það kemur enginn hér inn, við fórum ekki neitt. Bara vinnan, leikskólinn og heim. Ég panta mat úr Krónunni heim. Eina sem við förum er í göngutúr í kringum Vífilsstaðavatn. Við vönduðum okkur eins og við mögulega gátum. Morguninn eftir fór Rögnvaldur í próf og fékk strax jákvætt svar,“ segir hún en þarna var kominn föstudagur.

„Á laugardag fórum við með alla strákana í sýnatöku og það kemur jákvætt hjá þessum elsta, sem er í Hofsstaðaskóla, en hinir yngri voru neikvæðir. Sem mér fannst skrítið því ég var viss um að smitið væri þaðan. Þar voru margir starfsmenn leikskólans að greinast jákvæðir á þessum tíma,“ segir hún.

Viku seinna fóru strákarnir aftur í skimun og þá reynist miðjubarnið vera með Covid.

„Þeir voru aldrei með einkenni en mig grunaði helst þennan þriggja ára, sem greindist aldrei með Covid. Hann kemur mest upp í á nóttunni og er mikill knúsari. Ég lét svo taka blóðprufu og þá reyndist hann vera með mótefni. Þannig að hann var örugglega fyrstur og smitaði mig og Rögnvald,“ segir hún og segir síðar hafa komið í ljós að þau voru með sömu veirugerð og starfsfólk leikskólans, ekki gerðina sem læknirinn var með.

Fékk að kveðja í hlífðarfötum

Kórónuveirufaraldurinn hefur komið í veg fyrir að fólk geti heimsótt fjölskyldu og vini sína á sjúkrahús og elliheimili og í sumum tilvikum hefur fólk ekki náð að kveðja deyjandi ástvini eins og það hefði viljað. Helga fékk að reyna það á eigin skinni. 

„Það getur verið mjög flókið, íþyngjandi og erfitt að eiga aðstandendur sem eru veikir inni á spítala. Það hafa verið svo mikil höft og heimsóknarbönn. Við erum með strangt heimsóknarbann á bráðamóttökunni en ég skil líka að við þurfum að vera sveigjanleg en um leið að gæta öryggis. Fjórum mínútum eftir að við fáum að vita að Rögnvaldur er líka með Covid fæ ég símtal frá spítalanum þar sem mér er sagt að pabbi minn hafi veikst illa. Hann hafði legið inni með endurteknar lungnabólgur, en var ekki með Covid. Hann hafði farið í litla aðgerð á þriðjudeginum en fær þarna mjög alvarlega slagæðablæðingu. Ég kemst ekki til hans þar sem ég var í einangrun en systir mín var sem betur fer til staðar. Pabbi varð mjög veikur og deyr svo nokkrum dögum síðar. Þetta var erfiðast við að vera fastur heima. Þetta er búið að vera alls konar, þetta ár,“ segir Helga alvarleg í bragði.

Fékkstu ekki að kveðja hann?

„Jú, ég fékk að fara á mánudeginum þegar ljóst var í hvað stefndi, klædd öllum hlífðarbúnaði. Ég fékk að kveðja. Hann var ekki með meðvitund en hann brást aðeins við mér og ég held að hann hafi vitað af mér. Það var alveg nauðsynlegt að fá þessa stund, en þetta var mjög sárt.“

Með snöruna um hálsinn?

Helga Rósa segir það áfall að greinast og annað og verra áfall að missa föður sinn og það á innan við viku frá greiningu.

„Ég upplifði stundum svona tilfinningu: „Er ég með snöruna um hálsinn? Er Rögnvaldur að fara að deyja líka? Verða strákarnir líka veikir?“ En við reyndum að hugsa bara um einn dag í einu. Svo létti manni aðeins þegar okkur fór að skána á áttunda degi,“ segir Helga Rósa.

Strákarnir sluppu sem betur fer við veikindi og hjónin virðast engan hafa smitað.

„Og ég er ofboðlega þakklát fyrir það. Ég veit að fólk getur ekki stjórnað því en ég get ekki ímyndað mér vanlíðanina sem fylgir því,“ segir hún og segir örfáa hafa þurft að fara í sóttkví vegna þeirra.

Hjónin þurftu að vera í einangrun og segja þau erfitt …

Hjónin þurftu að vera í einangrun og segja þau erfitt að vita ekki í byrjun hvort þau hafi smitað aðra. Svo reyndist sem betur fer ekki vera.

mbl.is/Ásdís

„Það var mikið stress að bíða eftir því að vita að þessir aðilar hefðu ekki smitast. Það er ekki hægt að rekja neitt smit í vinnunni minni til okkar,“ segir Helga Rósa og Rögnvaldur segir það sama gilda um hans vinnustað.

Hvað gerið þið að loknum löngum vinnudegi til að slaka á?

„Þá sofnar konan mín yfir sjónvarpinu og ég fer út að ganga eða geng frá á heimilinu,“ segir Rögnvaldur sem segist gera ráð fyrir að líf fólks verði undirlagt af Covid langt fram á næsta ár.

Þið eruð ekki að hrósa happi alveg strax?

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir