10.3 C
Grindavik
29. september, 2022

Fékk hjólið óvænt aftur hálfu ári eftir stuld

Skyldulesning

Hrafn sáttur með gripinn í dag.

Hrafn sáttur með gripinn í dag.

Í lok ágúst var rafmagnshjóli Hrafns Jónssonar kvikmyndagerðarmanns stolið þar sem það stóð læst fyrir utan vinnustað hans.

Í morgun, um sex mánuðum seinna, fékk hann hjólið sitt óvænt aftur í hendurnar, þökk sé Bjartmari Leóssyni sem hefur á undanförnum árum fundið hundruð stolinna reiðhjóla og komið þeim í réttar hendur.

Í samtali við mbl.is segist Hrafn afar þakklátur fyrir að vera kominn með hjólið aftur í hendurnar.

Hann gefur lítið fyrir aðstoð lögreglunnar í málinu.

Hrafn segir Bjartmar hafa haft samband við sig strax í ágúst þegar hann auglýsti eftir hjólinu á Facebook. Samdægurs hafi hann síðan verið kominn með upptöku úr öryggismyndavél á allt öðrum stað í bænum þar sem menn sjást með hjólið.

Fékk nafn mannsins sem var með hjólið

„Ég sendi þetta á lögregluna, þau taka við myndinni og segjast ætla að skoða þetta og ég er nokkuð viss um að ég muni sjá hjólið fljótlega aftur, af því að það sést mjög vel í andlitið á þeim sem tók það og ég fæ meira að segja nafn á þeim manni sem sést á þeirri mynd,“ segir Hrafn.

Hann segist síðan hafa beðið eftir svörum frá lögreglunni í langan tíma en að þau hafi verið lítil sem engin. Nokkrum vikum seinna hafi hann svo fengið bréf þar sem kom fram að búið væri að loka málinu.

„Svo fæ ég þau skilaboð í morgun frá Bjartmari að hann hafi fengið nafnlausa ábendingu um að svona hjól hafi sést. Hann man eftir því að ég hafi verið að leita að svona hjóli og sendir mynd á mig og spyr hvort þetta sé ekki hjólið. Svo veður hann bara þarna og sækir hjólið og skutlar því til mín.“

Hrafn bendir á að ljóst sé að hjólaþjófnaður sé algengur þar sem lögregla aðhafist lítið í slíkum málum.

„Þú getur bara farið og pikkað upp eitthvað sem kostar hálfa milljón og það gerist ekki neitt, þú átt enga von á því að lögreglan mæti heim til þín.“

Hjólið í tiltölulega fínu ástandi

Hrafn segir Bjartmar hafa verið í um tvö til þrjú ár að finna hundruð stolinna reiðhjóla og komið þeim í réttar hendur. Hann kunni ótal sögur af því að hann hafi jafnvel gefið lögreglunni upp heimilisföng hjá þeim sem stálu hjólum en að ekkert hafi verið gert.

„Manni finnst það svo skrýtið, af því að það er ekki eins og þetta séu bara einhverjir smáglæpir, þetta eru hjól sem að kosta oft hundruð þúsunda og jafnvel milljónir. Það er enginn áhugi einhvern veginn á að gera nokkurn skapaðan hlut.“

Hrafn segir hans hjól kosta um hálfa milljón króna og að það hafi átt að koma að miklu leyti í stað bifreiðar. Því hafi missirinn af því þessa sex mánuði verið mikill.

Hann segir hjólið í tiltölulega fínu ástandi en standarinn sé þó brotinn, hnakkurinn sé laus og svo hafi verið reynt að brjóta rafhlöðuna úr hjólinu. Rafhlaðan kosti um 150 þúsund krónur.

Ástæðan fyrir því að hjólið sé í svo góðu ástandi sé vegna svokallaðrar „kælingar“, þar sem beðið er með að selja hjólið.

„Þau hafa væntanlega setið á því í nokkra mánuði. Það eru ekki þúsund svona hjól á götunni þannig það væri líklegra að finna það þá.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir