1 C
Grindavik
27. nóvember, 2020

Fellin gerðu það gott í október

Skyldulesning

Sandfell var aflamesti línubáturinn í október.

Sandfell var aflamesti línubáturinn í október.

mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Það er enginn vafi um að október hafi verið góður mánuður hjá línubátum Loðnuvinnslunnar, Sandfelli SU 75 og Hafrafelli SU 65. Heildarafli bátana tveggja var samanlagt 380,6 tonn og voru þeir aflamestu bátarnir í mánuðinum.

Það var Sandfellið sem var aflamesti línubáturinn í október og nam heildarafli 213,1 tonni. Náðist aflinn í 15 róðrum og var mesti aflinn í einum róðri 23,9 tonn, að því er fram kemur á vef Loðnuvinnslunnar. Landað var úr Sandfelli á Bakkafirði, Vopnafirði og í Neskaupstað.

Heildarafli Hafrafells, sem skipar annað sætið, nam 167,5 tonnum í október. Náðist aflinn í 17 róðrum og var mesti aflinn í einum róðri 22,5 tonn. Landað var úr Hafrafelli á Vopnafirði, Siglufirði og Bakkafirði.

Bolvíkingar í næstu sætum

Bátar sem landa á Bolungarvík koma sterkir inn og skipar Jónína Brynja ÍS 55 þriðja sætið, en heildarafli línubátsins í október nam 165,4 tonnum. Fjöldi róðra var 18 og var mesti afli í einum róðri 15,8 tonn.

Fríða Dagmar ÍS 103, sem einnig landaði á Bolungarvík í október, var með 162,8 tonna heildarafla eftir 18 róðra og vermir báturinn fjórða sætið. Mesti afli í stökum róðri nam 15,4 tonnum.

Áhöfnin á Kristni HU 812 tókst að ná í 156,8 tonn í 20 róðrum og eru því í fimmta sæti. Aflanum var landað á Skagaströnd, en mesti afli í einum róðri nam 12,3 tonnum.

Innlendar Fréttir