1 C
Grindavik
15. janúar, 2021

FH fékk bætur fyrir Eið

Skyldulesning

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að sambandið hafi borgað FH bætur fyrir að losa Eið Smára Guðjohnsen úr starfi hjá Hafnarfjarðarliðinu.

Eiður Smári var í dag tilkynntur sem nýr aðstoðarlandsliðsþjálfari karla en Arnar Þór Viðarsson var ráðinn þjálfari liðsins. Samningur þeirra er til tveggja ára.

Í síðasta mánuði skrifaði Eiður Smári undir samning við FH um að stýra liðinu næstu tvö árin í Pepsi Max deild karla eftir að hafa tekið við liðinu, ásamt Loga Ólafssyni, um mitt sumar.

Guðni segir að vel hafi gengið að ræða við FH um Eið og þeir hafi ekki viljað standa í vegi fyrir honum.

Hann staðfesti þó að KSÍ og FH hafi komist að samkomulagi um bætur enda Eiður nýbúinn að binda sig hjá Fimleikafélaginu.

KSÍ gaf Eiði Smára tækifæri að taka við FH í sumar er hann var aðstoðarþjálfari hjá U21 árs landsliðinu en Guðni þakkaði FH-ingum fyrir góð vinnubrögð.

Logi Ólafsson og Eiður þjálfuðu FH-liðið saman í saman en nú tekur Logi við með Davíð Þór Viðarsson sér til aðstoðar. Davíð er einmitt bróðir Arnars Þórs.

Innlendar Fréttir