Fimm látnir úr nýju kórónuveiruafbrigði – DV

0
99

Fimm andlát hafa verið staðfest á Bretlandseyjum af völdum nýs kórónuveiruafbrigðis sem gengur undir nafninu Arcturus.

Arcturus er talið meira smitandi en önnur afbrigði og hefur það valdið töluverðum usla á Indlandi þar sem það er nú ráðandi.

Breska blaðið Mirror greinir frá þessu.

Arcturus virðist vera byrjað að dreifa sér um Bretlandseyjar og nálgast fjöldi staðfestra smita nú 200. Langflest tilfellin hafa greinst á Englandi, eða 120 og þá hafa nokkur greinst í Wales, Skotlandi og Norður-Írlandi. Arcturus hefur nú greinst í 28 löndum.

Í frétt Mirror er haft eftir sérfræðingum að ekkert bendi til þess að Arcturus sé hættulegra en önnur afbrigði þó það sé ef til vill meira smitandi.

Mirror greindi frá því fyrir skemmstu að einkenni Arcturus séu ekki beint hefðbundin fyrir kórónuveirusmit. Auk einkenna á borð við hita og hósta hafa sjúklingar upplifað „klæjandi“ tárubólgu og augnkvef.

Dr Vipin Vashisttha, barnalæknir og fyrrum yfirmaður samtaka indverskra barnalækna, sagði í samtali við The Hindustan Times að óvenjulegt sé að sjúklingar fái einkenni á borð við augnkvef í tengslum við kórónuveirusmit.