6.2 C
Grindavik
23. júní, 2021

Fimm nýir stjórnendur hjá Arnarlaxi

Skyldulesning

Fv.: Jón Garðar Jörundsson, Kjersti Haugen, Johnny Indergård, Hjörtur Methúsalemsson og Rúnar Ingi Pétursson.

Samsett mynd

Arnarlax hefur lokið við ráðningu fimm nýrra starfsmanna. „Ráðning þeirra mun styrkja rekstur Arnarlax í áframhaldandi framþróun fyrirtækisins, en þau hafa öll þegar tekið til starfa,“ segir í tilkynningu frá félaginu.

Jón Garðar Jörundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar. Hann gekk fyrst til liðs við fyrirtækið í október í fyrra eftir að hafa aðstoðað fyrirtækið í hlutafjárútboðsferli. Þá hefur Jón Garðar m.a. gegnt stöðu stjórnarmanns hjá Arnarlaxi frá 2014 til 2015, framkvæmdastjóra Hafkalks ehf. frá 2012 til 2020 og ráðgjafa hjá KPMG á árunum 2010 til 2012.

Kjersti Haugen hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri sölusviðs, en hún gegndi áður stöðu rekstrarstjóra sölufyrirtækisins Seaborn. Fram kemur í tilkynningunni frá Arnarlaxi að Haugen hafi yfirgripsmikla reynslu af sölu fiskafurða og hefur unnið að flutningum og sölu á alþjóðlegum vettvangi frá árinu 1987.

Seaborn gekk í fyrra frá samningum við þrjú eldisfyrirtæki hér á landi (Laxar fiskeldi, Fiskeldi Austfjarða og Arctic Fish) um að selja lax frá þeim undir sameiginlegu vörumerki (Iceborn) og var Haugen viðmælandi 200 mílna við tilefnið. Arnarlax var ekki meðal þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í verkefninu.

Þá hefur Arnarlax ráðið Johnny Indergård í stöðu ferskvatnsstjóra. Hann hefur níu ára reynslu af seiða- og stórseiðaframleiðslu frá MOWI í Noregi, sem er jafnframt langstærsta laxeldisfyrirtæki í heimi.

Hjörtur Methúsalemsson mun gegna stöðu verkefnastjóra í viðskiptaþróunardeild, en hann hefur undanfarin tvö ár starfað hjá Matvælastofnun (MAST). Þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem Hjörtur tekur til starfa hjá Arnarlaxi þar sem hann var áður líffræðingur hjá fyrirtækinu.

Rúnar Ingi Pétursson er nýr framleiðslustjóri í vinnslu Arnarlax. Hann hefur reynslu af sjávarútvegi sem sjómaður og í uppsjávarverksmiðju sem rekstrarstjóri verktaka.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir