2.3 C
Grindavik
27. janúar, 2023

Finnst liðið taka skref í rétta átt – ,,Munum selja okkur dýrt“

Skyldulesning

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu segir að íslenska liðið muni selja sig dýrt á morgun í æfingaleik við Spánverja ytra. Hann telur liðið vera að taka skref í rétta átt og til þess að bæta leik liðsins sé það mjög gott fyrir þróunina að spila á móti mjög góðum liðum á borð við Spán

,,Við tókum mjög mikið jákvætt úr leiknum gegn Finnum. Leikplanið okkar gekk að mestu leyti upp þar. Við vorum mikið meira með boltann heldur en þeir, áttum fleiri færi, fleiri skot. Sóknarlega vorum við í mjög góðu shape-i og áttum margar góðar sóknir. Við tökum það með okkur,“ sagði Arnar um jafnteflið gegn Finnum.

Liðið sé að taka rétt skref í þróun sinni.

,,Við erum að reyna bæta okkur með hverjum leiknum sem við spilum. Við erum að spila við eitt af bestu liðum í heimi á morgun. Við erum að spila þessa leiki til þess að æfa okkur. Það er mjög gott að spila á móti mjög góðum liðum líka. Þeir (Spánverjar) dóminera leikinn og eru meira með boltann en flest þau lið sem þeir spila á móti. Til þess að geta þróað okkar leik verðum við að spila á móti liðum með mismunandi upplegg. Við munum selja okkur dýrt á morgun.“

Verkefni morgundagsins er af stærri gerðinni.

,,Við vitum bara með því að horfa á smá tölfræði af andstæðingnum að þeir senda hátt upp í 1000 sendingar á leik. Við vitum að þeir eru mikið með boltann og við þurfum að vera þéttir, vera mjög sterkir varnarlega og þurfum að finna trigger svæðin í pressunni hjá okkur. Ef þetta gengur vel eru líka möguleikar fyrir okkur í leikjum á móti liðum eins og Spáni.“

Arnar býst ekki við því að gera margar breytingar milli leikja en góðar fréttir eru úr herbúðum liðsins, Albert Guðmundsson æfði bæði í gær og í dag og virðist vera klár í slaginn eftir að hafa ekkert spilað gegn Finnum.

,,Albert æfði í gær og í dag, það er mjög jákvættt. Æfingin var að klárast þannig ég er ekki búinn að fá skýrslu frá liðslækninum. En flestir koma vel út en ég verð að fá stöðuna um alla áður en ég ákveð byrjunarliðið.“

En ljóst er að Andri Lucas Guðjohnsen mun ekki spila á morgun. Hann spilaði heldur ekki gegn Finnum vegna meiðsla og því var Arnar spurður að því á blaðamannafundinum hvort Andri Lucas væri að græða eitthvað á því að vera með liðinu í verkefninu.

,,Andri Lucas, við reyndum eins og við gátum að bíða með hann. Hann fékk högg rétt áður en hann kom til okkar. Það leit lengi vel bara mjög vel út með hann en það hægðist aðeins á batanum fyrir leikinn á móti Finnum. Það er mjög ólíklegt að við tökum einhverja áhættu með hann á morgun. Ætlunin var ekki sú að vera bara með hann í hópnum. Við vonuðumst til þess að hann gæti tekið þátt. Við höfum verið í samskiptum við félagið hans sem gaf leyfi á að hann væri áfram með okkur hérna og hann fær fullt út úr því að vera bara með okkur. Það sogast inn upplýsingar hjá honum eins og hjá öðrum leikmönnum.“

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir