Í þessari veiðiferð ber svo við að um borð er eftirlitsmaður frá Fiskistofu, en þeir fara gjarnan um borð í fiskvinnsluskip, til eftirlits og mælinga. Það ber hins vegar svo við að í þessari veiðiferð er eftirlitsmaðurinn kona, Lína Hildur Jóhannsdóttir. En það telst ekki algengt svo vitað sé. Blaðamaður Júllans hitti Línu í stakkageymslunni og forvitnaðist um hvers vegna hún sæktist eftir þessari vinnu úti á ballarhafi.

Aðspurð sagðist Lína, sem er menntuð úr fiskvinnsluskólanum, hafa byrjað til sjós 17. júlí 1988 þá á togaranum Vestmannaey sem var þá nýkominn úr breytingum en skipinu var þá breytt úr ísfisktogara yfir í frystitogara. Hún dvaldist þar um borð í á annað ár en þá réði hún sig á Harald Kristjánsson HF 2 sem gerður var út af Sjólastöðinni í Hafnarfirði.

Þar var hún til ársins 2003 er hún gerðist starfsmaður fiskistofu og er enn. Hér um borð finnst mönnum það skemmtileg tilbreytni að fá kvenkyns eftirlitsmann um borð og margur maðurinn sýnir á sér nýjar hliðar þegar séntilmaðurinn brýst fram í þeim… Ekki er loku fyrir það skotið að rakspírinn hafi verið meira notaður af skipverjum, nú en áður!

Um framhaldið sagði Lína að hún hugsaði bara um einn túr í einu, og helst ekki mikið meira en það, hvað framtiðin bæri í skauti sér yrði bara að koma í ljós.

Það er allavega ekki hægt að segja það um Línu að hún sé fiskifæla, því ágætlega hefur fiskast í þessari veiðiferð sem brátt tekur enda.

Meðfylgjandi myndir tók Magnús Snorrason af Drottningu hafsins að störfum.

Takk fyrir túrinn Lína…. Velkomin aftur 🙂