4 C
Grindavik
3. mars, 2021

Fiskibollur, inniskór og aðrar nauðsynjar

Skyldulesning

Inga Þorvaldsdóttir stökk inn og náði meðal annars í fiskibollurnar …

Inga Þorvaldsdóttir stökk inn og náði meðal annars í fiskibollurnar sem áttu að vera í matinn í gær.

mbl.is/Pétur Kristjánsson

Inga Þorvaldsdóttir, íbúi á Seyðisfirði, sótti fiskibollur, inniskó og aðrar nauðsynjar heim til sín í fylgd með björgunarsveitarmönnum í dag þegar ljósmyndari mbl.is átti leið hjá. Inga er ein af þeim fjölmörgu Seyðfirðingum sem þurfti að yfirgefa heimili sitt vegna aurskriðna sem féllu í gær og frekari hættu á þeim.

Enn er hættustig vegna skriðuhættu í gildi á svæðinu og geta íbúar því ekki snúið heim að fullu strax. Björgunarsveitarmenn fylgdu þeim sem þurftu að sækja nauðsynjar heim til sín í dag. 

„Húsið okkar er akkúrat þarna sem stóra spýjan fór. Hún fór niður þarna við hliðina á okkur svo við vorum ein af þeim sem þurftum að fara,“ segir Inga í samtali við mbl.is.

Hér má sjá eina af skriðunum í hlíðinni.

Hér má sjá eina af skriðunum í hlíðinni.

mbl.is/Pétur Kristjánsson

Húsið hennar slapp þó alveg. „Við erum ysta húsið í þessari götu þar sem skriðan fór. Við erum bara dálítið heppin að það hafði fallið skriða fyrir um fjórum árum síðan sem er nú gróin upp og það veitir okkur pínu skjól þannig að það breytti farveginum frá okkur. Efst uppi stefnir skriðan aðeins á okkar hús en vegna þess að það er svo djúpur farvegur sem skriðan beygir svo á. Þannig að þetta er dálítið frá okkur þó þetta sé nálægt okkur.“

Svona er umhorfs á Seyðisfirði í dag, eftir aurskriður sem …

Svona er umhorfs á Seyðisfirði í dag, eftir aurskriður sem þar féllu í gær.

mbl.is/Pétur Kristjánsson

Var brugðið en er samt nokkuð róleg

Var ekkert mál að finna annað húsaskjól?

„Áður en allar skriðurnar byrjuðu var maðurinn búinn að hringja í samstarfskonu sína sem á Lónsleiruna, vegna þess að honum fannst eitthvað mikið vera í gangi, og spurði meira í kaldhæðni hvort við fengjum ekki herbergi. Þannig að við erum bara í góðu yfirlæti hérna í íbúð. Pabbi minn sem er áttræður býr í kjallaranum hérna niðri,“ segir Inga.

Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar, var á meðal þeirra sem fylgdi …

Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar, var á meðal þeirra sem fylgdi fólki á heimili sín til að ná í nauðsynjavörur.

mbl.is/Pétur Kristjánsson

Inga var á bæjarskrifstofu Seyðisfjarðar þar sem hún starfar þegar hættustig vegna skriðufalla var tilkynnt og hún þurfti að rýma húsnæðið ásamt samstarfsfólki sínu,

mbl.is/Pétur Kristjánsson

„Auðvitað var manni brugðið og það var komið til okkar í vinnuna á bæjarskrifstofunni og við beðin um að yfirgefa húsnæðið þannig að manni brá auðvitað en ég er samt alveg róleg yfir þessu,“ segir Inga sem er fædd og uppalin á Seyðisfirði og hefur búið þar flest sín ár.

Hún vonast til þess að komast heim bráðlega en það er ekki útlit fyrir að það verði fyrr en í fyrsta lagi á morgun. Töluverðri úrkomu er spáð í kvöld.  

Innlendar Fréttir