2 C
Grindavik
15. maí, 2021

Fiskimjölsverksmiðjurnar komnar á fullt

Skyldulesning

Framleiðslan á fiskimjöli úr kolmunnanum er komin í gang í verksmiðjum Síldarvinnslunnar.

Ljósmynd/Síldarvinnslan

Bjarni Ólafsson AK kom með um 1.700 tonn til Neskaupstaðar á föstudagskvöld og Börkur NK til Seyðisfjarðar með 2.250 tonn í gærmorgun, en Beitir NK er væntanlegur til Neskaupstaðar um miðnætti með rúmlega 2.900 tonn.

Kolmunnaveiðarnar suður af Færeyjum hafa gengið vel að undanförnu, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar og hafa báðar fiskimjölsverksmiðjur fyrirtækisins hafið vinnslu.

„Verksmiðjan í Neskaupstað fór í gang á laugardagsmorgun og þetta lofar mjög góðu. Það er góð veiði og skipin koma með gott vel kælt hráefni að landi. Fiskurinn er svolítið farinn að horast á þessum árstíma þannig að það kemur fyrst og fremst mjöl út úr hráefninu, lýsið er afar lítið. En þetta er úrvalsmjöl sem um er að ræða,“ er haft eftir Hafþóri Eiríkssyni, rekstrarstjóra fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar og verksmiðjustjóra í Neskaupstað.

„Verksmiðjan hér á Seyðisfirði fór í gang í gær. Börkur kom í gærmorgun og það verður lokið við að landa úr honum núna um hádegið. Við erum afskaplega ánægðir með að hefja vinnslu,“ segir Eggert Ólafur Einarsson, verksmiðjustjóri á Seyðisfirði.

„Hér var tekið á móti einum kolmunnafarmi í janúar en þar áður barst hráefni til okkar í maí. Það eina sem unnið er í verksmiðjunni hjá okkur er kolmunni og við erum því alltaf ánægðir þegar kolmunnaveiðarnar hefjast og þær virðast ganga býsna vel núna,“ segir Eggert Ólafur.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir