5 C
Grindavik
6. maí, 2021

Fiskur, rafmagnsleysi og skjálftar

Skyldulesning

Í nógu hefur verið að snúast hjá starfsmönnum Grindavíkurhafnar undanfarið. Meiru hefur verið landað þar heldur en um árabil og því nóg verið að gera í hefðbundnum störfum. Að auki hafa rafmagnsleysi, jarðskjálftar og bátar í erfiðleikum sett svip á vinnudaginn hjá Sigurði Arnari Kristmundssyni hafnarstjóra og félögum hans hjá Grindavíkurhöfn. „Veður, veiðar, vinnsla og verð skapa velgengni og sú hefur verið staðan í Grindavík undanfarið, en á sama tíma er fólk uggandi vegna hrinunnar sem er í gangi,“ segir Sigurður Arnar.

Hann segir að marsmánuður byrji ágætlega og flestir bátar séu að fiska vel. Eftir góða tíð kom norðanstrekkingur í síðustu viku og ekki allir bátar á sjó. Hann segir að afli frá áramótum hafi ekki verið meiri alla vega frá 2015 og landanir ekki verið fleiri á þessu tímabili heldur en í ár.

Föstudag fyrir rúmri viku fór rafmagn af í Grindavík og hafði það áhrif á starfsemi hafnarinnar fram á laugardag, að sögn Sigurðar Arnars. Hann segir að menn hafi áttað sig á tvennu meðan þetta ástand varði; í fyrsta hversu illmögulegt það sé að vera án rafmagns og nets og í öðru lagi hversu svart myrkrið geti orðið. Höfnin fékk lánaða dísilstöð til að framleiða rafmagn á föstudaginn og var hún tengd við vigtarkerfið.

Handfært á gula miða

Hann segir lán í óláni að bátarnir sem landi hjá stóru vinnslunum komi flestir inn fyrri hluta vikunnar og því hafi ekki þurft að þjóna þeim. Nokkrir minni bátanna, sem sumir séu þó engir smábátar, séu með krana um borð og tveir vörubílakranar hafi því dugað við löndunina. Á þennan hátt hafi verið landað hátt í 200 tonnum úr 16 bátum umræddan föstudag.

Sigurður segir að færslur með upplýsingum um vigt og fleira, meðal annars fyrir Fiskistofu, hafi allt verið handfært á gula miða. Upplýsingarnar hafi síðan verið færðar inn í tölvukerfin þegar netið var komið á að nýju síðdegis á laugardeginum.

„Það er skelfilegt að missa rafmagnið og það skapaði talsverðan hasar hjá okkur. Þetta var áminning og margir eru að hugleiða að koma sér upp varaafli. Áhrifin voru mikil hjá hátæknifyrirtækjunum, þar sem allt stöðvaðist um tíma og sums staðar varð tjón,“ segir Sigurður Arnar.

Á miðvikudag í síðustu viku fékk snurvoðarbátur í skrúfuna á Leirnum, 2-3 sjómílur vestur af Grindavík. Björgunarskipið Oddur dró bátinn í land, en hafnsögubáturinn var til staðar ef frekari aðstoðar væri þörf, en til þess kom ekki. Vel gekk að skera úr skrúfunni og var báturinn kominn aftur á veiðar skömmu eftir óhappið.

Um jarðskjálftana sem eiga upptök sín ekki ýkja langt frá Grindavík segir Sigurður að hafnarstarfsmenn finni fyrir þeim eins og aðrir. Hann segist líka hafa heyrt sjómenn tala um að þeir finni skjálfta, högg komi á bátana og þá sé eins og þeir hafi rekist á eitthvað.

spot_img
spot_img
spot_img

Innlendar Fréttir