Fjallaljón réðst á mann í nuddpotti – DV

0
164

Það var stefnt að huggulegri stund í heita pottinum þegar hjón ein, sem búa í Colorado í Bandaríkjunum, skelltu sér í pottinn fyrr í mánuðinum. En rómantíska stundin breyttist skyndilega í skelfilega upplifun. Hjónin sátu í pottinum, í bústað sem þau höfðu leigt, þegar maðurinn fann skyndilega að bitið var í höfuð hans. Þar var komið fjallaljón sem hafði læðst að þeim í myrkrinu og ráðist á manninn.

Hjónin öskruðu og skvettu vatni á ljónið. Konan náði síðan í vasaljós og lýsti á dýrið sem lagði þá á flótta að því er segir í tilkynningu frá Colorado Parks and Wildlife.

Sean Sherpher, hjá Colorado Parks and Wildlife, segir í fréttatilkynningunni að þrátt fyrir að maðurinn hafi sloppið með minniháttar meiðsl, þá sé atburðurinn tekinn mjög alvarlega.

Nú er leitað að ljóninu en reyna á að fanga það. Gildrur hafa verið settar upp á þeim svæðum sem talið er að það haldi sig á.

Þetta var fyrsta árás fjallaljóns á manneskju í Colorado í rúmlega ár. Um 7.000 fjallaljón eru í ríkinu en þau forðast venjulega að koma nálægt fólki og láta nægja að ráðast á hirti og elgi.