Saudi Media Group, sádi-arabískur fjárfestahópur undir handleiðslu stjórnarformannsins Mohamed Al-Khereiji, hefur lagt fram kauptilboð í enska knattspyrnufélagið Chelsea.
Tilboðið hljóðar upp á 2,7 milljarða punda.
Al-Khereiji er stuðningsmaður Chelsea og lærði viðskiptafræði í Lundúnum auk þess að starfa hjá greiningardeild Deutsche Bank þar í borg.
Allar eigur Romans Abramovich, núverandi eiganda Chelsea, hafa verið frystar eftir að bresk stjórnvöld beittu hann refisaðgerðum vegna tengsla hans við Vladimír Pútín Rússlandsforseta, þar á meðal Lundúnafélagið sem hann keypti árið 2003.
Áður en til refsiaðgerðanna kom hafði Abramovich tilkynnt að hann hygðist selja Chelsea og að söluverð væri í kringum þrjá milljarða punda. Bresk stjórnvöld hafa gefið það út að mögulegt sé að af sölu verði en að Abramovich fengi þá sjálfur engar fjárhæðir í sinn hlut.
Ben Jacobs, íþróttafréttamaður hjá CBS Sports í Bandaríkjunum, greindi frá því á twitteraðgangi sínum að tilboð Saudi Media Group væri ekki tengt stjórnvöldum í Sádi-Arabíu með beinum hætti en að Mohammed bin Khalid Al-Saud, stjórnarformaður Saudi Telecom, stærsta fjarskiptafyrirtækis Mið-Austurlanda sem er í eigu sádi-arabíska ríkisins, muni styðja við leit hópsins að frekara fjármagni og samstarfsaðilum.
Fjárfestingasjóður Sádi-Arabíu, PIF, sem á 80 prósent hlut í enska knattspyrnufélaginu Newcastle United, seldi í desember síðastliðnum sex prósent hlut sem það átti í Saudi Telecom á 2,5 milljarða punda, og á enn hlut í fjarskiptafyrirtækinu.
Samkvæmt heimildum Middle East Eye telst ólíklegt að tilboð Saudi Media Group fái grænt ljós frá ensku úrvalsdeildinni vegna þeirra tengsla sem hópurinn virðist hafa við sádi-arabísk stjórnvöld.
Slík tengsl komu hins vegar ekki í veg fyrir kaup sádi-arabísks fjárfestahóps með bein tengsl við stjórnvöld þar í landi á Newcastle í október síðastliðnum.
Fjárfestahópurinn sjálfur býst ekki við því að komið verði í veg fyrir að tilboðið fái grænt ljós þar sem bein tengsl hópsins við stjórnvöld væru engin.