Fótbolti
Arnar Geir Halldórsson skrifar

vísir/Getty
14 liða úrvalsdeild í sænska kvennaboltanum árið 2022.
Sænska knattspyrnusambandið hefur staðfest ákvörðun sína um að fjölga liðum í efstu deild sænska kvennaboltans frá og með árinu 2022 úr tólf og upp í fjórtán.
Það þýðir að aðeins eitt lið mun falla úr efstu deild á næstu leiktíð og þrjú liðu munu komast upp úr Elitettan, næstefstu deildinni í Svíþjóð.
Sænska deildin er sú langsterkasta á Norðurlöndunum og er á meðal bestu deilda Evrópu.
Íslenskar knattspyrnukonur hafa verið áberandi í sænsku úrvalsdeildinni á undanförnum árum og á nýafstaðinni leiktíð var það hin íslenska Elísabet Gunnarsdóttir sem var valin þjálfari ársins eftir að hafa stýrt Íslendingaliði Kristianstad í 3.sæti deildarinnar.
Þá var Glódís Perla Viggósdóttir, sem leikur með stórliði Rosengard, tilnefnd sem besti varnarmaður ársins en hún hefur verið einn allra besti leikmaður deildarinnar undanfarin ár.