8 C
Grindavik
15. apríl, 2021

Fjölmennt í fangageymslum

Skyldulesning

Níu manns voru í fangageymslum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun. Hafði fólkið endað þar vegna ýmiskonar brota. Átta ökumenn voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt grunaðir um að vera undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Ellefu kvartanir bárust vegna hávaða.

Kona slasaðist á andliti þegar hún datt fyrir utan veitingastað í Hlíðahverfi. Hún var flutt með sjúkrabifreið á bráðadeild.

Fjórir voru handteknir í miðborginni eftir að akstur bifreiðar, sem fólkið var í, var stöðvaður. Bifreiðin reyndist vera stolin og fólkið allt í annarlegu ástandi. Ökumaðurinn reyndist auk þess vera sviptur ökuréttindum.

Í Garðabæ var brotist inn í fyrirtæki í nótt en ekki liggur fyrir hverju var stolið.

Í Breiðholti voru tveir menn til vandræða í verslun þar sem þeir vildu ekki nota andlitsgrímur. Mennirnir voru í annarlegu ástandi. Eftir viðræður við lögregluna lofuðu þeir bót og betrum. Þrír voru handteknir í Breiðholti í nótt, grunaðir um líkamsárás og voru þeir vistaðir í fangageymslu. Um þrjú aðskilin mál er að ræða.

Einn var handtekinn í Mosfellsbæ í nótt en sá er grunaður um húsbrot og líkamsárás. Hann var vistaður í fangageymslu.

Innlendar Fréttir